Einn leikur fer fram í Domino´s deild karla í kvöld en þá eigast við KR og Keflavík. Toppliðin sem bæði hafa 32 stig á toppi Domino´s deildarinnar en KR hefur betur innbyrðis eftir 70-81 sigur í Keflavík. Ef Keflvíkingar ætla sér að ná innbyrðismuninum til baka verða þeir að hafa 12 stiga sigur í DHL Höllinni í kvöld. Leikur kvöldsins mun líklega fara langt með að tryggja sigurliði kvöldsins deildarmeistaratignina svo það er mikið í húfi fyrir bæði lið, heimaleikjaréttur alla úrslitakeppnina!
 
 
Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport og munu KR-ingar tendra grilli og hefja hamborgarafjörið kl. 18:00.
 
KR og Keflavík hafa aðeins tapað einum leik á tímabilinu, KR lá heima 98-105 gegn Grindavík í janúarbyrjun en Keflavík tapaði heima gegn KR þann 18. nóvember síðastliðinn. Síðan þá hafa Keflvíkingar unnið 10 deildarleiki í röð og KR er sem stendur á fimm leikja sigurspretti.
 
Þá er skammt stórra högga á milli í dómgæslunni því sömu dómarar og dæmdu bikarúrslitaleik Grindavíkur og ÍR á laugardag munu dæma í kvöld í DHL Höllinni en það eru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.
 
Eftir kvöldið í kvöld verður 18 umferðum lokið í Domino´s deild karla. Það þýðir að fjórar umferðir verða í boði eftir kvöldið og átta stig í pottinum fyrir liðin í deildinni. Grindvíkingar í 3. sæti geta enn náð Keflavík eða KR að stigum en það þýðir að toppliðin þurfi að tapa rest leikja sinna svona nokkurn veginn. Óhætt er því að slá því föstu að það verði fjölmennt í DHL Höllinni í kvöld svo vísast er ráðlegt að mæta snemma.
 
Fleiri leikir eru á dagskránni í kvöld en sjá má alla leiki dagsins hér. 
 
Mynd/ skuli@karfan.is – Brynjar Þór Björnsson leikmaður KR sækir hér að körfu Keflavíkur í fyrri leik liðanna í TM-Höllinni í Keflavík.