Íslenskir körfuboltamenn biðu eftir þessum leik með mikilli eftirvæntingu og KR-ingar og Keflvíkingar ætluðu ekki að valda vonbrigðum. Uppskeran var æsispennandi leikur, rétt eins og svona mikilvægir leikir eiga að vera.
 
KR-ingar fóru hægt af stað í sókn en varnarleikur þeirra var framúrskarandi strax frá fyrstu mínutu. Watts tók fast á Craion og hann ekki alveg klár í slaginn. Keflvíkingar hittu ekkert fyrir utan en KR-ingar höfðu heldur betur stillt miðið og voru að setja hann frá þriggja stiga línunni. Höfðu hitt úr öllum þremur skotum sínum eftir tvær og hálfa mínútu af leik. Varnarleikur Keflavíkur var flatur og beinlínis latur. Engin hjálp og engin hreyfing. Það vakti furðu undirritaðs að Andy Johnston hafi aldrei í öllum þessum hamagang ákveðið að taka leikhlé til að róa KR-inga niður. 29-13 slátrun í fyrsta leikhluta endaði með þrist frá Martin rétt áður en flautan gall.
 
Keflvíkingar mættu aðeins hressari til leiks í upphafi annars hluta og komust snemma í 31-20. Craion fór að ná áttum og keyra grimmt að körfunni, en Keflvíkingar fóru líka í enn meira mæli að henda boltanum inn til hans í teignum. Hittu ekkert fyrir utan og voru 1/8 í þristum þegar 5:30 voru eftir af fyrri hálfleik. Kærulaus varnarleikur KR-inga á þessu augnabliki hleypti Keflvíkingum aftur inn í leikinn og staðan orðin 40-35. Stórkostleg troðsla hjá Watt á Lewis hristi upp í KR-ingum en Craion svaraði með að blokka Magna út á bílaplan. Hálfleikstölur voru 48-39 fyrir röndóttum og Pavel langt kominn í þrennuna með 12 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst og ljóst að allt stefndi í svakalegt kvöld hjá honum.
 
Seinni hálfleikur hefst með því að liðin skiptast á körfum. Keflvíkingar eru hreyfanlegri í vörninni en KR-ingar halda áfram að hitta fyrir utan. Helgi Már með tvo mikilvæga þrista í röð sem komu KR-ingum í 58-46. Keflvíkingar áttu erfitt með að klára færin sín undir körfunni og áttu erfitt með að halda KR-ingum frá því að hirða sóknarfráköst. 
 
Keflvíkingar hófu nú að berja aðeins frá sér og tekur Brynjar Þór á móti einni hressilegu olnbogaskoti frá Magnúsi Gunnars. Undirritaður fékk endursýningu frá snillingunum í KRTV og þar sást augljóslega ljótur olnbogi frá Magnúsi beint í augabrúnina á Brynjari. Við þetta misstu dómararnir, sem annars dæmdu frábærlega, leikinn frá sér í örstutta stund. Keflvíkingar taka leikhlé og hefja sprett sem KR-ingar eiga erfitt með að stöðva með Michael Craion í fararbroddi. Staðan orðin 65-57 þegar Helgi Már setur rándýran þrist sem Darri Hilmars fylgdi síðan eftir með körfu og villu. Þriðji hluti endar í stöðunni 72-65 og leikurinn hvergi nærri kominn í ís.  
 
KR halda áfram skotveislunni í upphafi fjórða hluta en teigurinn þeirra tók að galopnast. Craion lék listir sínar óhindrað án hjálpar frá öðrum varnarmönnum. Brynjar fer að hitna og setur niður mjög mikilvæg skot. Ótrúleg þriggja stiga karfa frá Magnúsi Gunnars í engu jafnvægi þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum kom Keflavík upp í 81-78 og Craion fylgir eftir með mikilvægri körfu í teignum. Staðan allt í einu orðin 81-80 og sóknarleikur KR í molum.
 
Þá hefst ótrúlegur kafli þar sem Helgi neglir þrist og Guðmundur Jóns svarar með þrist og KR tekur leikhlé í stöðunni 84-83 og 2:40 eftir af leiknum. Craion kemur Kef yfir 84-85. Pavel setur þriggja stiga skot og í kjölfarið er brotið á Craion og hann setur annað af vítum sínum niður. Víti sem hefðu getað komið Keflvíkingum í mjög ákjósanlega stöðu. Staðan 87-87 og KR-ingar taka leikhlé.
 
Darri Hilmarsson gleymdist mjög oft inni í teig Keflvíkinga og en hann brenndi af galopnu skoti þegar um 30 sekúndur voru eftir af leiknum. Keflvíkingar bruna upp og Craion kemur skoti af sem geigar en nær sóknarfrákastinu og Brynjar brýtur á honum. Craion setur bæði vítin og kemur Keflvíkingum tveimur stigum yfir í 87-89.  KR tekur leikhlé.
 
KR-ingar hefja langa sókn eftir leikhléið sem endar með erfiðu skoti frá Brynjari sem geigar. Pavel sogar niður 15. frákastið sitt og kemur boltanum út og þar gengur hann hálfhringinn þar til hann endar aftur á Brynjari sem setur þrist í þetta sinnið úr mun betra færi. Rándýr þristur sem kemur KR-ingum einu stigi yfir og nokkrar sekúndur eftir. Keflvíkingar reyna örvæntingarfulla sókn þar sem öll leikhlé þeirra eru búin, ná af þriggja stiga skoti sem geigar og ná að fylgja því eftir en hvorugt ætlar niður en þar með gellur flautan og leikurinn úti. Erfiður en vel verðskuldaður sigur KR-inga staðreynd.
 
KR-ingar voru óstöðvandi fyrir utan með 16 þriggja stiga körfur úr 33 tilraunum. Þeir unnu einnig frákastabaráttuna með 42 á móti 32 og tóku einnig niður 15 sóknarfráköst. 17 tapaðir boltar heimamanna gáfu þó gestunum tilefni til komast aftur inn í leikinn.
 
Sóknarleikur Keflavíkur var vita máttlaus fyrir utan stórleik Michael Craion og Darrel Lewis. Craion var með 37 stig, 10 fráköst, 5 varin skot og 6 stolna bolta og nýtingu sem er vel til eftirbreytni eða 71% (15/21). Fyrir þetta uppskar hann 49 fáheyrð framlagsstig! Darrel Lewis bætti við 25 stigum, Guðmundur Jónsson og Magnús Gunnarsson bættu við 23 stigum til samans, en aðrir leikmenn eins og Arnar Freyr, Gunnar Ólafsson og Valur Orri voru bókstaflega ósýnilegir.
 
Hjá KR leiddi Helgi Már með 21 stig og var 6/9 í þristum. Pavel setti upp sína fimmtu þrennu í vetur með 17 stig, 16 stoðsendingar og 15 fráköst. Framlag frá nánast öllum leikmönnum KR sem spiluðu.
 
Einvígi Michael Craion og Demond Watt var skemmtilegt og spennandi í fyrsta hluta þar sem Watt náði að hægja aðeins á besta leikmanni deildarinnar. En þar var sagan sögð og Craion setti í jarðýtugírinn og Watt átti engin svör þrátt fyrir mörg ágætis tilþrif.
 
Þá er það ljóst að KR-ingar eru einir á toppi deildarinnar innbirðis viðureignirnar við Keflvíkinga sér í hag. Það eina sem stoppar KR núna eru þeir sjálfir, taki þeir upp á að mæta kærulausir til leiks líkt og þeir gerðu strax eftir jól. 
 
 
Mynd: jon@karfan.is
Myndband:  KRTV