Haukar unnu sinn fjórða deildarsigur í röð í Domino´s deild karla í gær þegar þeir í fyrsta sinn í 15 ár unnu leik í Keflavík. Lokatölur 81-90 fyrir Hauka sem sitja nú í 5. sæti úrvalsdeildarinnar með 22 stig rétt eins og Njarðvíkingar sem þó hafa betur innbyrðis á Hafnfirðinga. Við ræddum við Ívar Ásgrímsson þjálfara Hauka nú í morgun sem var vitaskuld ánægður með sigurinn en hann kvað Hauka ekki standa í neinum kastalabyggingum þrátt fyrir að hafa lagt Njarðvík og Keflavík í síðustu tveimur umferðum.
 
 
„Jú það er vonandi,“ svaraði Ívar aðspurður hvort Haukar ætli sér ekki oftar sigur í Keflavík heldur en á 15 ára fresti. „Það var frábært að vinna þennan leik, ég mundi ekkert fyrir leikinn hvað það var langt síðan Haukar unnu þarna en það var þó gaman að komast að því að ég var líka að þjálfa síðast þegar það gerðist, skemmtileg tilviljun en það er erfitt að fara til Keflavíkur og vinna,“ sagði Ívar en hvað þýðir þetta fyrir framhaldið hjá Haukum í deildinni?
 
„Mig dreymir ekki um 4. sætið eins og er, við ákváðum að taka einn leik fyrir í einu og svo sjáum við hvað verður. Við lentum í okkar eigin krísu á tímabilinu með fjóra tapleiki í röð en við unnum í okkar málum saman og fórum í gegnum hvað þyrfti að laga svo vonandi heldur þetta bara áfram. Maður veit aldrei hvernig maður fær liðið sitt í næsta leik en hjá okkur var þetta spurning um hvað þyrfti að laga og breyta og hópurinn tók því vel en við erum ekki að byggja neina kastala í augnablikinu, við erum bara rétt komnir út úr moldarkofanum. Við erum engu að síður komnir á stað sem Haukar eiga að vera á, að berjast í efri hlutanum frekar en þeim neðri, Haukar er stórt félag sem á sér sögu í körfuboltanum og við eigum ekki að líða neitt annað en að berjast þarna uppi.“
 
Í boði eru núna sex stig fyrir Haukana og gangi þeim allt að óskum gætu þeir lengst farið upp í 3. sæti í töflunni. „Við eigum tvo heimaleiki eftir af þessum þremur leikjum. Næst er Þór Þorlákshöfn og við töpuðum gegn þeim í bikarnum og það var í þessari niðursveiflu okkar en við teljum okkur vera betri í dag. Þór er með gott lið og hafa unnið marga leiki enda nánast jafnir okkur að stigum. Þetta verður hörku leikur gegn Þór og við sjáum bara hvernig það en erum staðráðnir í því að verja heimavöllinn. Þar á eftir er leikur gegn Skallagrím sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni svo þetta eru allt erfiðir leikir og ef þú slakar á þá tapar þú!“
 
Mynd/ Axel Finnur