Keflvíkingar taka á móti Haukum í Domino´s deild karla í kvöld en Haukar hafa jafnt og þétt verið að færa sig upp á skaftið í deildinni og unnu sterkan sigur á Njarðvíkingum í síðustu umferð. Ætli þeir sér að gleypa Suðurnesjalið annan leikinn í röð verður það fjórði deildarsigur Hauka í röð sem eru í 5. sæti deildarinnar með 20 stig. Keflvíkingar eru hinsvegar í harðri baráttu við KR-inga um deildarmeistaratitilinn og þurfa að vinna alla sína leiki sem eftir eru og vonast til að KR misstígi að minnsta kosti sig í tvígang síðustu fjórar umferðirnar, aðeins þannig verður Keflavík deildarmeistari.
 
Keflvíkingar verða þó að þykja líklegri til afreka á leið inn í leik kvöldsins því eins og einn góður Haukamaður sagði hér í eina tíð: „Þeir eru margir leikirnir sem hafa tapast á Reykjanesbrautinni.“ Til að renna styrkari stoðum undir orð þessa Haukamanns þá hafa Hafnfirðingar ekki unnið leik á heimavelli Keflavíkur síðan 17. október 1999 eða í hart nær 15 ár. Síðustu 13 leikir Hauka í deild, úrslitakeppni eða fyrirtækjabikar hafa allir tapast svo sagan er Keflavíkurmegin í kvöld en það er búið að sýna sig að Haukarnir gelta ekki bara hátt í ár, þeir bíta líka.
  
Mynd/ Axel Finnur – Svavar Páll í leiknum gegn Njarðvík á dögunum.