Haukar eru Poweradebikarmeistarar kvenna 2014 eftir 70-78 sigur á Snæfell í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Bikarleikur af bestu sort sem var hnífjafn og spennandi. Haukar hafa þar með landað sínum sjötta bikarmeistaratitli í sögu kvennaliðs félagsins og eins og gefur að skilja fögnuðu Hafnfirðingar vel og innilega í leikslok. Lele „Hard working“ Hardy var valin besti maður leiksins en Hardy fór hamförum með 44 stig, 14 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Snæfell var Chynna Brown með 31 stig og 9 fráköst.
 
 
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir opnaði bikardaginn með tveimur stigum fyrir Snæfell eftir hraðaupphlaup og Hólmarar fögnuðu vel í stúkunni. Snæfell sleit sig snemma frá með sterkum varnarleik og komust í 10-4. Teigskot Haukakvenna vildu ekki niður og nýtingin var afleit og að sama skapi var Chynna Brown að hitta úr öllu sínu fyrir Snæfell, var 5-5 í teignum og með 12 stig eftir fyrsta leikhluta þar sem Snæfell leiddi 21-11. Þriggja stiga línan virtist gaddfreðin fyrstu tíu mínúturnar því liðin tóku alls 11 þriggja stiga skot en ekkert þeirra vildi heim.
 
Snemma í öðrum leikhluta fann Margrét Rósa Hálfdánardóttir fyrsta Haukaþristinn í leiknum en Hafnfirðingar þurftu ellefu tilraunir til að afreka niður fyrsta bikarþristinn í dag. Að sama skapi vaknaði varnarleikur Hauka og hlutirnir fóru að smella. Jóhanna Björk Sveinsdóttir var iðin við kolann og með flottum snúning í teignum minnkaði hún muninn í 24-20 og strax þar á eftir stal Hardy boltanum og minnkaði í 24-22. Ingi Þór kallaði þá Hólmara í smá samræður en Haukar voru komnar í gírinn. Lele Hardy lét Hólmara finna fyrir tevatninu og setti fimm stig í röð og lokaði svo fyrri hálfleik með þriggja stiga körfu og Haukar leiddu 35-41 í leikhléi. Magnaður annar leikhluti hjá Haukum sem þær unnu 14-30 og Hólmarar sem virtust hafa öll spilin á hendi sér eftir fyrsta leikhluta voru komnar á hælana.
 
Lele Hardy var með 22 stig og 5 fráköst í hálfleik hjá Haukum og Jóhanna Björk var með 8 stig og 7 fráköst. Hjá Snæfell var Chynna Brown með 15 stig og Hildur Björg Kjartansdóttir með 8 stig og 9 fráköst. Flottur fyrri hálfleikur að baki þar sem liðin skiptu leikhlutunum bróðurlega á milli sín.
 
Stuðið úr öðrum leikhluta var enn kraumandi í æðum Hauka í upphafi þriðja leikhluta því Hafnfirðingar komust í 39-47 eftir tvo þrista frá Margréti Rósu og Gunnhildi. Hólmarar voru þó aldrei langt undan og náðu að minnka muninn í 44-47 en Auður Íris Ólafsdóttir hélt Hólmurum í skefjum 54-59 með teigskoti þegar mínúta lifði af þriðja leikhluta og var ekki meira skorað. Staðan 54-59 fyrir Hauka fyrir fjórða og síðasta leikhluta og þriðji leikhluti bæði sá jafnasti og harðasti til þessa í leiknum.
 
Stórskyttan úr Grindavík, Íris Sverrisdóttir, stimplaði sig loks inn í stigaskorið fyrir Hauka í upphafi fjórða leikhluta er hún kom Hafnfirðingum í 56-62 með þrist. Eftir þetta datt leikurinn í hengilás. Skotnýting eða öllu heldur vöntun á henni gerði vart við sig og það herti á baráttudalinn, hver karfa var allt að því lúxusvara en varnarleikurinn að sama skapi þéttur og hart barist.
 
Lele Hardy kom með sprengju, þristur og staðan 59-67 en Hólmarar klóruðu sig nærri, 65-69 eftir tvö víti frá Brown þegar tvær og hálf mínúta lifðu leiks. Eva Margrét Kristjánsdóttir minnkaði muninn í 67-69 með tveimur vítum, hvergi bangin Ísafjarðardaman en Haukar voru ekkert á því að láta forystuna af hendi. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti glæsilegt gegnumbrot á móti svæðisvörn Snæfells og kom Haukum í 67-71 og Hardy jók muninn í sex stig, 67-73 þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka.
 
Hólmarar fengu tæki færi til þess að komast að nýju nærri Haukum, stolinn bolti og þriggja stiga skot sem vildi ekki niður, kannski svolítið saga leiksins í dag hjá Hólmurum sem enn mega bíða eftir sínum fyrsta stórtitli í kvennaflokki. Haukar luku verkefninu 70-78 og eru bikarmeistarar 2014. Til hamingju Haukar og Hafnfirðingar!
 
 
Snæfell-Haukar 70-78 (21-11, 14-30, 19-18, 16-19)
 
Snæfell: Chynna Unique Brown 31/9 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 18/12 fráköst/3 varin skot, Hildur Sigurðardóttir 6/7 fráköst/6 stoðsendingar, Eva Margrét Kristjánsdóttir 5, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 4, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 4/11 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2, Alda Leif Jónsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Edda Bára Árnadóttir 0, Aníta Rún Sæþórsdóttir 0.
Haukar: Lele Hardy 44/14 fráköst/7 stolnir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 10/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8/7 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 7/6 fráköst, Íris Sverrisdóttir 3, Dagbjört Samúelsdóttir 2, Guðrún Ósk Ámundadóttir 2, Auður Íris Ólafsdóttir 2/4 fráköst, Lovísa Björt Henningsdóttir 0/3 varin skot, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 0, Inga Rún Svansdóttir 0, Þóra Kristín Jónsdóttir 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jón Bender
 
Byrjunarliðin:
 
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Chynna Unique Brown og Hildur Björg Kjartansdóttir.
Haukar: Auður Íris Ólafsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Margrét Rósa Hálfdánardóttir og Lele Hardy.
  
Umfjöllun – jon@karfan.is
Efri mynd – Tomasz Kolodziejski / Neðri mynd – jon@karfan.is