Blikar fengu Skagamenn í heimsókn í mikilvægum leik í fyrstu deild karla í kvöld. Mörg lið berjast um sæti í úrslitakeppninni, meðal annarra þessi tvö, og því afar dýrmæt stig í boði.
Það tók liðin smá tíma að finna körfurnar í kvöld en heimamenn voru fyrri til og komu sér í nokkurra stiga forystu. Sóknarleikur gestanna leit hræðilega út til að byrja með og Zachary sá eini sem gerði sig svo mikið sem líklegan til að setja stig á töfluna. Blikar höfðu úr fleiri möguleikum að moða og umframsentimetrarnir sem þeir höfðu á Skagamenn skiluðu sér í sóknarfráköstum og auðveldum körfum. Níu stiga forysta, 27-18, eftir fyrsta leikhluta því engin furða.
 
 
Gestirnir gulu sýndu hins vegar hvers þeir eru megnugir í öðrum leikhluta. Þeim gekk mun betur að þétta teiginn og berjast allir sem einn um fráköstin og bæta þannig upp hæðarmuninn. Zachary var ekki eins einmana í sóknarleiknum og fleiri létu til sín taka. Eftir 7 stiga bunu, þar af snögg 5 stig frá Zachary, komu Skagamenn sér í 36-39 stiga forystu og um 4 mínútur eftir af leikhlutanum. Heimamenn svöruðu þessari bunu ágætlega, hreyfðu boltann betur í sókninni og sköpuðu sér auðveldar körfur eins og fyrr í leiknum. Staðan 48-47 í hálfleik.
 
Skagamenn héldu áfram að sýna mikla baráttu en frákastavandamálið hvarf þó ekkert í leikhléinu. Það var einkum flott sóknartilþrif Ómars Helgasonar og hins logandi heita Birkis Guðjónssonar sem gerðu það að verkum að gestirnir héldu í við heimamenn og var meira og minna jafnt á öllum tölum. Birkir tók sig til við að raða þristum og var maðurinn bókstaflega logandi enda minnist undirritaður þess ekki að hann hafi verið rauðhærður í fyrri hálfleik. Heimamenn enduðu hinsvegar leikhlutann sterkt líkt og í öðrum leikhluta og komu sér í 74-68 forystu fyrir lokaleikhlutann. Spurning hvort nokkrar aukaferðir um endilangan Langasand gæti ekki gert Skagamönnum gott.
 
Því miður varð fjórði leikhluti ekki eins spennandi og vonast mátti eftir. Heimamenn byrjuðu að krafti og komu sér strax í 10 stiga forystu. Þeir breyttu um vörn og hleyptu meiri ákefð í hana. Skagamenn gerðu reyndar slíkt hið sama hinum megin en það skilaði aðeins því að Blikar byrjuðu að setja einn og einn þrist ofan á það að stýra teignum. Jerry og Egill Vignisson voru Skagamönnum erfiðir undir körfunni og Ægir Bjarnason setti nokkra fyrir utan. Þetta reyndist Skagamönnum um megn og úrslitin hefðu ráðist fyrr ef fyrrnefndur Birkir hefði ekki logað áfram fram eftir leikhlutanum. Samt sem áður öruggur sigur heimamanna að lokum, 107-86, og dýrmætu stigin tvö urðu eftir í Kópavoginum.
 
Hjá Blikum nýttu stóru mennirnir sér hæðina nokkuð vel. Jerry skoraði 20 stig og hirti 15 fráköst, Egill Vignisson setti einnig 20 stig og tók 12 fráköst og Oddur Kristjánsson átti líka flottan leik með 19 stig.
 
Zachary setti 26 og gaf 8 stoðsendingar fyrir Skagamenn, en þess má geta að aðeins 8 stiganna komu í síðari hálfleik. Birkir Guðjónsson endaði með 23 stig, 7/11 í þristum. Ómar Helgason sýndi svo skemmtilega takta, lauk leik með 17 stig 9 fráköst.
 
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson