Grindvíkingar eru bikarmeistarar karla 2014 eftir sigur á ÍR í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Gulir og glaðir settust snemma við stýrið en það tók þá ansi drjúga stund að skilja ÍR endanlega eftir. Breiðhyltingar með ungan og óreyndan hóp mættu þéttum varnarleik Íslandsmeistara síðustu tveggja ára og máttu sætta sig við 89-77 ósigur. Fimmti bikartitill Grindvíkinga er því kominn í hús og sá fyrsti síðan 2006 en gengið hjá gulum í Laugardalshöll hefur verið dræmt undanfarin ár en nú hafðist það. Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson var svo verðskuldað valinn besti maður leiksins með 20 stig og 11 fráköst.
 
 
Fyrstu stig bikarleiksins komu af vítalínunni og þau gerði Jóhann Árni Ólafsson fyrir Grindvíkinga. Hjalti Friðriksson splæsti svo í þrist og kom ÍR á kortið og eftir þetta gekk Villta vestrið í garð. Lewis Clinch setti upp skotsýningu og kom Grindavík í 12-10 með þrist ,reyndar setti hann þrjá í jafn mörgum tilraunum í leikhlutanum en ÍR lét ekki stinga sig af. Varnarleikur Breiðhyltinga hefði mátt vera þéttari enda setti Grindavík 28 stig á ÍR fyrstu 10 mínúturnar og leiddu 28-21 að þeim loknum. Clinch var kominn með 11 stig í liði Grindavíkur eftir fyrsta leikhluta en Hjalti Friðriksson var með 8 í liði ÍR.
 
Ísmaðurinn Ragnar Örn mætti svelkaldur inn í annan leikhluta og kýldi niður þrist fyrir ÍR, 31-24 en Grindvíkingar voru samt heitir. Skotnýting gulra var góð og ÍR-ingar áttu erfitt með að halda gulum í skefjum þegar þeir sóttu í teiginn. Breiðhyltingar gátu þó sjálfum sér um kennt, aðeins dæmdar fjórar villur á þá allan fyrri hálfleikinn!
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson mætti með flotta rispu, troðslu og svo brunað í vörn og varið skot og Grindvíkingar komnir í 45-36. ÍR tók til allrar hamingju sín vegna lokasprettinn og minnkaði muninn í 45-40 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Lewis Clinch var með 12 stig í hálfleik hjá Grindavík og Ólafur Ólafsson var með 9. Hjá ÍR var Hjalti Friðriksson með 12 stig og 5 fráköst.
 
Skotin héldu áfram að fara á loft hjá ÍR í síðari hálfleik. ÍR-ingum gekk verr að sækja að körfunni enda Grindvíkingar þéttir fyrir en Sveinbjörn Claessen minnkaði muninn í 47-43 með þrist fyrir ÍR. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var svo allt í öllu hjá Grindavík í þriðja leikhluta, splæsti í stolinn bolta og bobsleðaferð upp völlinn þar sem hann kláraði snyrtilega, strákurinn á að fá bónusgreiðslur fyrir svona fléttur. Björgvin Hafþór minnkaði muninn niður í 59-54 með þrist fyrir ÍR og svona gátu Breiðhyltingar haldið sér í armslengd frá Grindavík og staðan 63-57 fyrir gula eftir þriðja leikhluta. ÍR á lífi en Grindvíkingar við stýrið.
 
Fjórði leikhluti hófst eins og allur leikurinn hafði verið fyrir Matthías Orra Sigurðarson, brotið á honum en ekki fékk hann nokkurn skapaðan hlut. Það var aðdáunarvert að fylgjast með þessum unga manni halda sönsum gegn þessum mótvind. Nú það er aldrei sár nema salt sé til staðar og Þorleifur Ólafsson saltaði sárið með þrist og kom Grindavík í 68-57 í upphafi fjórða. Bróðir hans Ólafur var einnig iðinn við kolann í allan dag, dísel vinnsla á drengnum og smám saman jókst munurinn, Clinch kom Grindavík í 70-59 með flottu gegnumbroti og Jón Axel Guðmundsson skellti svo niður þrist þegar fimm og hálf mínúta var til leiksloka og staðan 73-59 fyrir Grindavík þegar Örvar tók leikhlé fyrir ÍR-inga.
 
Jón Axel var sem andsetinn á lokasprettinum og ef hann skellti ekki niður þristum þá var hann að berja sér leið upp að körfunni og spila svaðalega vörn. Frábær lokakafli hjá drengnum og ekki vanþörf á enda margir gulir farnir að blása vel eftir allt erfiðið. Grindavík braut aldrei ÍR í dag, beygðu þá samt nægilega til að slíta sig frá og klára leikinn 89-77.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, besti maður leiksins, verður betri með hverjum leiknum núna eftir áramót og kláraði með 20 stig og 11 fráköst. Lewis Clinch Jr. gerði 20 stig, tók 6 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Hjá ÍR var afmælisbarnið Sveinbjörn Claessen með 18 stig, Hjalti Friðriksson bætti við 17 stigum og 6 fráköstum og Nigel Moore var með 11 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
 
Byrjunarliðin:
ÍR: Matthías Orri Sigurðarson, Björgvin Hafþór Ríkharðsson, Sveinbjörn Claessen, Nigel Moore og Hjalti Friðriksson.
Grindavík: Lewis Clinch Jr., Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Grindavík-ÍR 89-77 (28-21, 17-19, 18-17, 26-20)
 
Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 20/11 fráköst/3 varin skot, Earnest Lewis Clinch Jr. 20/6 fráköst/9 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 12/8 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Axel Guðmundsson 10, Ómar Örn Sævarsson 8/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 7, Kjartan Helgi Steinþórsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.
ÍR: Sveinbjörn Claessen 18/4 fráköst, Hjalti Friðriksson 17/6 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 12/4 fráköst, Nigel Moore 11/11 fráköst/7 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 9, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0, Sæþór Elmar Kristjánsson 0, Daníel Freyr Friðriksson 0, Kristófer Fannar Stefánsson 0, Birgir Þór Sverrisson 0, Arnar Ingi Ingvarsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rognvaldur Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson