Það var ekki fyrir svekkelsinu að fara hjá Snæfellsstúlkum í kvöld sem komu bara einbeittari til leiks í deildinni á ný eftir að hafa fengið silfrið í bikarnum. Snæfell áttu ekki vandasaman dag gegn gestum þeirra úr Njarðvík og sigruðu sinn þrettánda leik í röð í Dominosdeild kvenna með 27 stigum 87-60.
 
 
Fyrsti hluti var jafn framan af og staðan 10-11 þegar Salbjörg Sævarsdóttir kom Njarðvík yfir eftir rúmar fimm mínútur. Þá hrökk Snæfellsvélin í gang og var ekki aftur snúið. 13-0 kafli leit dagsins ljós með Chynna Brown og Öldu Leif í stuði. Guðrún Gróa stal boltanum í annað sinn á þessum kafla og Hildur Björg kláraði tvö stig af öryggi 23-11. Njarðvík löguðu aðeins stöðunua undir lok fjórðungsins og staðan 23-15.
 
Snæfell sleit sig meira og meira frá Njarðvík en bæði lið voru klaufsk á köflum öðrum hluta. Frásköstin sem Snæfell tók í leiknum gaf þeim gjörsamlega allt vald í teignum og fengu þær annan séns trekk í trek í sóknum sínum sem gaf þeim 17 stiga forskot í hálfleik 43-26. Ef Snæfell stal ekki boltanum eftir að hafa tapað honum þá áttu þær öll fráköst í sókn og vörn en þær voru komnar með 31 frákast gegn 12 Njarðvíkur og þar af 13 sóknarfráköst.
 
Í hálfleik var Chynna Brown komin með 17 stig í liði Snæfells og HIldur Björg 10 stig og 8 fráköst. Hildur Sigurðar dóttir var komin með 7 fráköst og Guðrún Gróa 5 fráköst. Hjá Njarðvík var Nikitta Gartrell komin með 12 stig og 4 fráköst og Andrea Björt 5 stig.
 
Um tíma hittu Snæfellsstúlkur ekki vel og Njarðvík nálgaðist en bara örlítið, 45-30 og þá smellti Eva Margrét einum ísköldum þrist og sá stutti kafli búinn. Þetta virkaði vel á liðið sem kom sér í þægilega stöðu 63-40 eftir þriðja hlutann og þær grænklæddu sáu vart til sólar og fengu lítið að vera með.
 
Þegar lið eins og Snæfell skartar tölfræðisamanburði, 58 gegn 25 fráköstum og þar af 22 í sókn. 28 gegn 11 stoðsendingum. Í framlagi 126 gegn 57 og sigra leikinn með 27 stigum 87-60 þá eru ekki marga veika bletti að finna. Snæfellstúlkurnar spiluðu bara nákvæmlega sinn leik sem þær hafa gert í vetur og þá þarf engum hindurvitnum að hampa, heldur hafa þær algjörlega treyst á eigin getu og styrk ásamt því að trúa og treysta hvorri annarri og sýndu sínu stuðningsfólki frábæra frammistöðu í kvöld.
 
Þegar heilt er á litið var þessi leikur nokkursskonar þverskurður beint á ská af þeirra leik í vetur og þessi varnarleikur og þessi frákastageta er það sem gerði það að verkum að Snæfell endaði svo á að hampa deildarmeistaratitlinum 2014 og er þá búnar að vera að á stóra sviðinu núna á nokkrum dögum. Eftir spjall við Inga Þór þjálfara, Hildi Sigurðardóttur fyrirliða og vinnuþjarkinn Guðrúnu Gróu var sammerkt í þeirra orðum að nú fyrst væri blóðbragðið farið að bragðast vel fyrir komandi átök og með nýrri keppni eflist liðið sem ætlar ekkert að slaka á.
 
Snæfell: Chynna Brown 27/6 frák/ 4 stoðs. Hildur Björg 20/14 frák/5 stoðs. Hildur Sigurðardóttir 11/12 frák/9 stoðs/4 stolnir. Guðrún Gróa 9/8 frák. Eva Margrét 7/5 frák. Helga Hjördís 5/5 frák. Alda Leif 5. Silja Katrín 2. Edda Bára 1. Aníta Rún 0. Rebekka Rán 0.
 
Njarðvík: Nikitta Gartrell 29/7 frák. Emelía Ósk 6. Andrea Björt 5/6 frák. Aníta Carter 5. Salbjörg Sævarsdóttir 4/5 frák. Guðlaug Björt 4/4 stoðs. Ína María 4. Heiða Valdimarsdóttir 3. Sara Dögg 0. Erna Hákonardóttir 0.
 
Það eru þrír leikir eftir í Dominosdeild kvenna þrátt fyrir að deildameistaratitill sé farinn á loft. Hildur Sigurðardóttir hafði þetta að segja eftir leik og fannst það ekki sniðug hugmynd að passa sig og hvíla leikmenn sérstaklega.
 
“Við langt í frá saddar og nú er nýtt mót að fara að hefjast og erum við búnar að fara í gegnum þetta langa mót sem er lengsta mótið og búnar að landa gullinu þar þrátt fyrir að nokkrir leikir séu eftir. Þetta er frábært og nú hefst undirbúniningurinn fyrir næstu skref. Þegar mér er sagt að passa mig þá er það ávísun á eitthvað slys en við gefum bara í fyrir næstu leiki og nýtum okkur að bæta okkar leik, ég er ekki tilbúin að slaka á. Þetta er ekki flókið við höldum okkar striki og keyrum þetta í gegn í úrslitunum það er ekki annaði boði en að koma með fullu sjálfstrausti og taka þetta.”
 
Guðrún Gróa var á sama máli og liðssystir sín og ætlar að sækja næsta titil með hörðu.
“Við stefnum að sjálfsögðu að taka næsta titil í nýju móti sem fer að hefjast. Það er heilmargt sem við getum lagað og fínpússað og þeir eru kærkomnir þeir leikir sem eru eftir til þess og til að koma með flugi inn í úrslitin.”
 
Ingi Þór var að vonum ánægður með að koma með liðið í erfiðan sigurleik og hampa deildarmeistaratitli í kjölfarið eftir erfiðan tapleik í Höllinni.
“ Við vorum ákveðnar með það og vissum að við spiluðum undir getu, Haukarnir spiluðu vel á móti okkur og voru ákveðnar. Nú er það að baki og þó við séum orðnar deildarmeistarar þá erum við ekki að fara að slaka á, það væri bara værukærð sem getum ekki leyft okkur. Það eru vissulega dömur sem eru í meiðslum og vorum við ekki fullmönnuð í dag og fínt að geta hvílt slíkt í næstu leikjum en við förum í að próaf nýja hluti og keyra okkur aðeins upp. Við þurfum bara að mæta tilbúnar úrslitakeppnina og ekkert annað kemur til greina eftir að vera komnar með eitt silfur og eitt gull, þá er gullið alltaf betra.”
 
 
 
Mynd – Sumarliði Ásgeirsson
Umfjöllun – Símon B. Hjaltalín