Einar Árni Jóhannsson mun ekki halda áfram með Njarðvíkinga að lokinni yfirstandandi leiktíð. Þetta staðfesti Einar Árni við Karfan.is. Einar segir mikið þrekvirki hafa verið unnið í Njarðvík síðustu ár. Samningur hans við félagið rennur út núna að tímabili loknu.
 
 
„Ég tók þessa ákvörðun á dögunum og hef þegar tilkynnt formannni deildarinnar sem og leikmönnunum mínum að ég muni ekki sækjast eftir áframhaldandi samstarfi með meistaraflokk félagsins en samningurinn minn rennur út í vor og frekara framhald hafði svosem ekkert verið rætt. Ég og Friðrik formaður komum inn sem þjálfarar á erfiðum tímapunkti í janúar 2011 og haustið 2011 var ákveðið að fara í markvissa uppbyggingu með klúbbinn og laga til í fjárhag samhliða. Stjórn deildarinnar hefur gert frábæra hluti með fjármálahliðina og á sama tíma haldið uppi flottri umgjörð í kringum liðið sem er fyrir mér mikið þrekvirki,“ sagði Einar en flestum er kunnugt að síðustu tímabil hafa Njarðvíkingar með ungan leikmannahóp vakið verðskuldaða athygli.
 
„Árangurinn er vissulega ekki eins og félagið á að venjast frá fyrri tíð, þ.e. í formi titla, en ég held að það hafi verið ágætis stígandi í þessu hjá okkur síðustu árin og nú er allur fókus hjá mér á að njóta þess að vinna með frábærum drengjum til vors og hafa gaman af því sem við erum að gera. Framundan eru spennandi lokaumferðir og svo langskemmtilegasti tími ársins, sjálf úrslitakeppnin. Þar hlakka ég til að sjá mína menn “með stoltið að vopni” eins og segir í laginu góða.“
 
Aðspurður um framhaldið sagði Einar það óráðið en hann ætlar sér áframhaldandi störf við þjálfun.