Poweradebikarúrslitin fara fram í Laugardalshöllinni næsta laugardag. Kvennaleikurinn hefst kl. 13:30 en karlaleikurinn kl. 16:00. Í kvennaflokki eigast við Snæfell og Haukar en í karlaflokki mætast Grindavík og ÍR. KKÍ hefur nú greint frá því hverjir dæma muni leikina á laugardag.
 
 
Neðangreint er af heimasíðu KKÍ:
 
Það eru reynsluboltar sem stýra leikjunum á laugardag. Dómarateymi leikjanna hafa í samtals dæmt 40 bikarúrslitaleiki. Því má segja að leikirnir verða í öruggum höndum.
 
Úrslitaleikur kvenna 2014 (2 dómarar)

Kristinn Óskarsson
Kristinn er að dæma sinn fjórða bikarúrslitaleik hjá konum. Hann hefur áður dæmt árin 1991, 2006 og 2012. Kristinn hefur dæmt níu bikarúrslitaleiki karla árin 1991, ‘92, ‘95, ‘98, 2002, ‘06, ‘08, ‘10 og ‘11. Kristinn er því að mæta í 13. skipti í
Höllina að dæma bikarúrslitaleik.
 
Jón Bender
Jón hefur dæmt þrjá bikarúrslitaleiki kvenna áður, 1995, 1999 og 2003, og dæmir því sinn fjórða nú í ár. Hjá körlum hefur hann einnig dæmt tvo leiki, árin 1997 og 2000.
 
Björn Leósson verður eftirlitsmaður í leiknum en hann hefur langa reynslu sem dómari og eftirlitsmaður á úrslitaleikjum. Björn var eftirlitsmaður á bikarúrslitaleik karla 2012.
 
Úrslitaleikur karla 2014 (3 dómarar)
 
Sigmundur Már Herbertsson
Sigmundur hefur dæmt fjóra bikarúrslitaleiki kvenna 1997, 1998, 2010 og 2013. Hann hefur einnig dæmt sex bikarúrslitaleiki karla 2003, 2006, 2007, 2009, 2011 og 2012 og er því að mæta í ellefta sinn í Höllina til þess að dæma bikarúrslitaleik. Sigmundur Már er virkur FIBA dómari og dæmir reglulega á mótum fyrir FIBA Europe.
 
Rögnvaldur Hreiðarsson
Rögnvaldur hefur dæmt fjórum sinnum áður í bikarúrslitum karla, fyrst 2004, síðan aftur árið 2006, 2010 og 2012. Hann á einnig fjóra leiki að baki í bikarúrslitum kvenna og er því að dæma sinn níunda leik í úrslitunum.
 
Eggert Þór Aðalsteinsson
Eggert Þór er að dæma sinn annan bikarúrslitaleik karla en hann dæmdi einnig úrslitaleikinn árið 2008. Hann hefur einnig dæmt þrjá bikarúrslitaleiki kvenna, árin 2001, 2005 og 2011 og er því að dæma sinn 5. úrslitaleik.
 
Rúnar Birgir Gíslason verður eftirlitsmaður í leiknum en hann hefur áralanga reynslu og var eftirlitsmaður á úrslitaleik kvenna í fyrra.
 
www.kki.is
  
Mynd/ nonni@karfan.is – Rögnvaldur Hreiðarsson verður einn þriggja dómara í bikarúrslitum karla.