Í kvöld fer fram heil umferð í Domino´s deild kvenna og hefjast allir fjórir leikirnir kl. 19:15. Deildarmeistarar Snæfells fá deildartitilinn afhentan í Stykkishólmi í kvöld þegar liðið tekur á móti botnliði Njarðvíkinga. Þetta verður í fyrsta sinn sem kvennalið Snæfells vippar deildarmeistaratitlinum á loft.
 
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild kvenna:
 
Keflavík – Hamar
Grindavík – Valur
Snæfell – Njarðvík
Haukar – KR
 
Með leikjunum í kvöld eru alls 8 stig í pottinum og þau má nýta öll til gagns sama hvar liðin eru í töflunni. Eitt er alveg ljóst og það er að Snæfell verður ekki velt úr toppsætinu enda með 8 stiga forystu á Hauka og hafa Hólmarar betur innbyrðis. Keflvíkingar eiga enn möguleika á 2. sætinu en þá þarf allt að ganga upp hjá og sömuleiðis allt á afturfótunum hjá nýkrýndum bikarmeisturum Hauka. Valur, Hamar og KR eru enn í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en eins og staðan er í dag virðist sá draumur nokkuð fjarlægur fyrir KR-inga sem eru 6 stigum á eftir Val í 4. sæti. Njarðvíkingar eru ekki enn fallnir enda aðeins tveimur stigum á eftir Grindavík sem er í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar. Lokaspretturinn verður því ansi fróðlegur.
 
 
Fjölmennum á völlinn!
  
Mynd/ nonni@karfan.is – Hildur Björg Kjartansdóttir og Snæfellskonur taka á móti Njarðvík í Stykkishólmi í kvöld.