Hamar kræktu sér í ansi mikilvæg stig í kvöld og halda fast í þá von að komast í úrslitakeppnina. Í kvöld sóttu þær sigur til Keflavíkur þar sem að leikurinn réðst á loka sekúndum leiksins.  84:88 varð að lokum niðurstaðan en Keflavíkurstúlkur leiddu megnið af leiknum. 
 
Sem fyrr segir voru það heimastúlkur í Keflavík sem leiddu megnið af leiknum og áttu ekki í töluverðum vandræðum með að skora gegn slakri vörn gestanna. En sú vörn átti eftir að herða á tökunum þegar á leið.  Í hálfleik leiddu Keflavík með 6 stigum og höfðu einhvern vegin alltaf þetta nokkuð þægilegt 4 til 6 stiga forskot í leiknum.  Þegar um fjórar mínútur voru til loka leiks náðu Hamar loksins að brjóta múrinn og komast yfir í leiknum.  Chelsie Schweers sá að mestu um að halda Hamarsskútunni á floti þetta kvöldi og gott betur.  
 
Þegar um tvær mínútur voru til loka leiks má segja að vendipunktur leiksins hafi átt sér stað þegar Bryndís Guðmundsdóttir lenti illa í sókn Keflvíkinga og lá eftir sár þjáð. Marín Laufey Davíðsdóttir sýndi mikin íþróttaanda þegar hún neitaði að fara í sóknina með liði sínu þar sem Bryndís lá sárþjáð.  Lið Hamars hélt hinsvegar áfram í sókn og dómarar leiksins sáu ekki ástæðu til þess að stöðva leikinn. Þeir fóru hinsvegar samkvæmt bókinni þar sem seigr að einungis á að stoppa leik við höfuðmeiðsl. Að því sögðu hefur nokkur hefð myndast þar sem dómarar stöðva leikinn við önnur meiðsl leikmanna ef  ekki “er mikið í gangi” á vellinum. Svo fór að loksins þegar tíminn stoppaði sauð á Keflavíkurstúlkum sem uppskáru í kjölfarið tæknivillu.  Staðan breyttist skyndilega úr jöfnum leik í það að Hamar höfðu 5 stiga forystu. 
 
Þegar um 1:28 mínútur voru eftir virtist allt stefna í sigur Hamar en Keflavíkurstúlkur neituðu að gefast upp og náðu á örskömmum tíma að koma sér aftur inn í leikinn og minnka muninn niður í 2 stig.  En Hamarsstúlkur héldu haus til enda og lönduðu sem fyrr segir afar mikilvægum stigum. 
 
Það þarf svo sem engan háskólamenntaðan til að skera úr um hver var (kvenn)maður þessa leiks. Chelsie Schweers bar af á parketinu í Keflavík þetta kvöldið. Tölurnar segja allt sem segja þarf.  54 stig og 13 fráköst. 59% nýting innan teigs og 62% nýting í þristum að ógleymdum 100% í vítum.  Þess  ber að geta að Chesie setti 22 stig í fyrri hálfleik og skoraði ekki eitt stig fyrstu 4 mínúturnar í seinni hálfleik.  Hjá Keflavík var Bryndís í sérflokki með 32 stig og 10 fráköst.  Diamber Johnson setti svo 20 stig gegn sínu gamla liði. 
 
 
 
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 32/10 fráköst, Diamber Johnson 20/8 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 19/10 fráköst/6 stolnir, Bríet Sif Hinriksdóttir 5, Sandra Lind Þrastardóttir 4/10 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 4, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 0/4 fráköst, Elfa Falsdottir 0, Thelma Dís Ágústsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Irena Sól Jónsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Hamar: Chelsie Alexa Schweers 54/13 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 12/7 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 11/4 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir 9/13 fráköst, Regína Ösp Guðmundsdóttir 2, Sóley Guðgeirsdóttir 0, Kristrún Rut Antonsdóttir 0, Katrín Eik Össurardóttir 0/4 fráköst, Jóna Sigríður Ólafsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0, Helga Vala Ingvarsdóttir 0.
Dómarar: Jón Bender, Gunnar Þór Andrésson