“Trúin flytur fjöllin og menn þurfa að trúa því að hægt sé að vinna Keflavík.” sagði Ívar Ásgrímsson fyrir 15 árum síðan. Þessi orð lét hann falla eftir síðasta sigur Hauka gegn Keflavík í viðtali við Morgunblaðið. Í kvöld voru það Haukamenn sem mættu með trúnna og lögðu ansi daufa heimamenn í Keflavík 81:90. Jafnt var á öllum tölum í hálfleik þar sem bæði lið höfðu skorað 46 stig. 
 
Já það er óhætt að segja að Haukamenn ætluðu frá fyrstu mínútu að selja sig dýrt þetta kvöldið.  Skotbakverðir þeirra mættu með byssurnar hlaðnar fyrir svæðisvörn Keflvíkinga. Haukur Óskarsson hlóð í fjóra þrista í fyrri hálfleik og maðurinn sjóðandi heitur framan af.  Haukar voru að spila gríðarlega vel og börðust fyrir öllu sínu. Á meðan þá virtist vera einhver doði yfir Keflavíkurliðinu.  Andy Johnston gerði breytingu á byrjunarliði sínu og skellti Magnúsi Gunnarssyni á tréverkið.  Gunnar Ólafsson tók sæti hans í byrjunarliðinu en hann varð svo fyrir meiðslum strax í upphafi seinni hálfleik þegar hann missteig sig og ökklinn teygði aðeins á sér. Hann spilaði því ekkert í seinni hálfleik nema þær 10 sekúndur sem hann náði í byrjun. 
 
Það var í raun ótrúlegt að leikurinn var jafn í hálfleik miðað við þá frammistöðu sem Keflvíkingar buðu uppá.  Slakar sendingar, léleg vörn og mestu munaði um Michael Craion sem var langt frá sínu besta í kvöld þrátt fyrir 17 stig og 10 fráköst.  Keflvíkingar náðu hinsvegar sínu “skyldu” 10 stiga forskoti í seinni hálfleik og hafa að öllum líkindum haldið að það eitt myndi drepa niður þá trú sem Haukar mættu með þetta kvöldið. 
 
En þessi baráttuandi sem Haukar sýndu var óþrjótandi með öllu og þeir komu sér aftur inn í leikinn með seiglu.  Keflvíkingar héldu áfram að hnoðast þetta einn á einn á meðan sóknarleikur Hauka gekk sem smurð vél.  Á lokasprettinum settu svo Kári Jónsson og Haukur Óskarsson niður tvo þrista sem má segja að hafi verið síðasti nagli í kistu Keflvíkinga að þessu sinni.  Þeir kláruðu svo dæmið á vítalínunni þegar Keflvíkingar freystuðu þess að brjóta á loka sekúndunum. 
 
Það má vera að rothöggið frá Brynjari Björnssyni á síðasta mánudag sitji eitthvað í Keflvíkingum en þeir þurfa að vera fljótir að hrista það af sér því úrslitakeppnin er handan við hornið.  Haukaliðið er hinsvegar skeinuhætt með öllu og hafa þeir nú á innan við viku tekið og sigrað báða Reykjanesbæjarrisana. Það er aðeins korter í úrslitakeppni og verður undirritaður að segja að Haukarnir koma til með að verða þeim sem mætast í fyrstu umferð þar gríðarlega hættulegir þó þeir nái ekki heimavallarréttinum.  Eins og staðan er í dag eru það Njarðvíkingar.