Það var komið að botnliði Valsmanna að taka á móti taplausum KR-ingum í Vodafone-höllinni í kvöld. Fyrir fram mátti kannski ekki búast við ýkja spennandi leik þar sem KR-ingar hafa verið óárennilegir í vetur og oftar en ekki farið illa með mótherja sína. Athygli vakti að leikurinn byrjaði korteri seinna en áætlað var af ókunnum ástæðum.
 
 
KR-ingar byrjuðu leikinn sterkt og Helgi kom gestunum sjö stigum yfir, 2-9 með sjö stigum í röð. Leikurinn hélst í jafnvægi og Valsmenn voru baráttuglaðir með Odd Ólafsson og Chris Woods í fararbroddi. KR-ingar voru þó skrefinu á undan og héldu muninum í 4-6 stigum. Gestirnir þurftu að hafa heldur minna fyrir sínum körfum en heimamenn en þeir bættu það upp með sóknarfráköstum og baráttugleði. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 22-26 gestunum í vil.
 
Pavel byrjaði annan fjórðung með tveimur þristum í röð og kom stöðunni fljótlega í 26-33. Darri var að spila grimma vörn í liði gestanna og gerðist sekur um stórþjófnað þar sem hann stal þremur ef ekki fjórum boltum í leikhlutanum. Það var ekki fyrr en munurinn var kominn upp í tveggja stafa tölu sem heimamenn vöknuðu og bitu frá sér. Birgir Björn sýndi fimar hreyfingar á ,,póstinum” og Woods átti einnig ágætar syrpur. KR-ingar hleyptu heimamönnum þó ekki of nálægt en staðan í hálfleik var 43-50 fyrir gestina. Helgi Magnússon var atkvæðamestur KR-inga í fyrri hálfleik með 11 stig en Birgir Björn var með 12 stig fyrir Valsara.
 
Það var engu líkara en að Finnur Stefánsson þjálfari KR-inga hafi messað yfir sínum mönnum í hálfleik en allt annað var að sjá leik gestanna í þriðja leikhluta. Þeir röndóttu keyrðu yfir Valsara og skoruðu fyrstu 7 stig leikhlutans og staðan orðin 43-57. Valsarar náðu þó að finna sinn takt aftur og héldu lífi í leiknum með mikilli baráttu og ógrynni sóknarfrákasta en þeir náðu 5 slíkum í einu og sömu sókninni og minnkuðu muninn í 52-60. KR-ingar voru þó hvurgi bangnir og enduðu leikhlutann af krafti og völtuðu yfir Valsara í lok leikhlutans með fínum sprettum frá Brilla og Terry Leake sem komu af bekknum. Staðan eftir þriðja fjórðung 58-74 og þungur róður framundan hjá Valsmönnum.
 
Munurinn fór fljótlega upp í 20 stig í fjórða leikhluta og fannst undirrituðum vera kominn uppgjafartónn í heimamenn. Fjórði leikhluti var því aðeins formsatriði fyrir gestina sem héldu muninum í rúmlega 20 stigum út leikinn. Lokatölur voru 74-102.
 
KR-ingar halda því áfram að tróna taplausir á toppnum á meðan að Valsmenn sitja á botninum. Getumunur liðanna er töluverður sem sást bersýnilega í þessum leik en Valsmenn eiga hrós skilið fyrir að mæta baráttuglaðir í leikinn og sýndu á köflum ágætis körfubolta.
 
Atkvæðamestur heimamanna var Chris Woods með 20 stig og 14 fráköst. Oddur Ólafsson og Birgir Björn áttu líka ágætan leik og skiluðu 15 stigum hvor. Í liði gestanna var stigaskorið mjög dreift en fimm liðsmenn voru með yfir 10 stig. Helgi var þó stigahæstur með 19 stig og Terry Leak var með 18.
 
 
Viðtöl við þjálfara liðanna

Finnur Stefánsson þjálfari KR-inga:
 
Finnur, það var smá værukærð í ykkur í fyrri hálfleik en svo small þetta betur í seinni hálfleik.
,,Já, mér fannst þetta bara döpur frammistaða framan af hjá okkur og ég er ósáttur með hvernig við komum til leiks, það vantaði alla ákveðni og kraft í vörnina hjá okkur. Þegar það gerist þá er ekki margt að frétta hjá okkur. Sóknarleikurinn var svo sem til staðar, við vorum að hitta ágætlega á móti svæðisvörninni þeirra og vorum að fá fín ,,look” en vörnin var ekki til staðar.
 
Það er kannski erfitt að ,,mótivera” sig á móti botnliðinu?
,,Nei, ég held það sé bara meira það að það er langt á milli leikja og það er erfitt að ná takti í þessu. Við spiluðum á móti mjög vængbrotnum Skallagrímsmönnum síðasta fimmtudag og eins og leikjafyrirkomulagið er þá þurfum við að bíða lengi en sem betur fer er stutt í næsta leik og við hlökkum bara til að mæta í DHL-höllina á sunnudaginn og mæta Haukum.“
 
Ari Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Vals:
 
Nú er búið að ganga ansi brösulega hjá ykkur sem af er vetri, hvernig er stemmningin í herbúðum Vals?
,,Stemmningin er ágæt hjá strákunum. Við vinnum Þór Þorlákshöfn um daginn og þá fengum við svona aðeins púst. Auðvitað er það alltaf erfitt þegar við töpum svona mörgum leikjum en mér finnst strákarnir vera búnir að standa sig vel í að halda góðri stemmningu og vona bara að við höldum því áfram. En það er vissulega alltaf erfitt að tapa mörgum leikjum í röð.“
Það er kannski pínu erfitt að ,,mótívera“ liðið gegn svona svakalegum andstæðingum í toppliði KR?
,,Alls ekki, við höfum engu að tapa. Þetta snýst ekki um mótherjann – þetta snýst um að mæta og við spilum ágætlega í fyrri hálfleik en KR liðið er vissulega með stjörnur í hverri stöðu og þeir leystu þetta verkefni bara vel.“
 
Já, það má kannski segja að munurinn á liðunum var of mikill og þeir sigldu bara framúr að lokum, ekki flóknara en það?
,,Nei, að sjálfsögðu ekki. En það eru þó fimm og fimm inn á og við eigum alveg að geta unnið hvaða lið sem er. Þetta er líka kannski spurning um það að trúa, og munurinn á okkur og KR núna var að þeir eru búnir að vinna X-marga leiki og við tapa X-mörgum leikjum í röð“ sagði Ari sposkur á svip.
 
Umfjöllun: ÞÖV