Úrvalslið Ruslsins fyrir fyrri umferð Dominosdeildar kvenna er:
 
Pálína Gunnlaugsdóttir, Grindavík
Pálína hafði spilað ótrúlega vel þar til hún meiddist í nóvember. 17,4 stig, 9,1 frákast og 4,3 stoðsendingar eru í raun ótrúlegar tölur fyrir bakvörð en engu að síður staðreynd. Skilvirknin er ekki mikil en framlagið er óumdeilanlegt. Hún er í tíunda sæti deildarinnar í dag yfir framlag per leik með 19,3. Grindavík er 5-3 með hana í liðinu en 1-5 án hennar ef talinn er með leikurinn sem hún meiddist í. Undirstrikar mikilvægi hennar fyrir liðið. 
 
Lele Hardy, Haukar
Lele er fyrirbæri sem sést einu sinni á mannsævi og í raun óskiljanlegt að hún sé hér að spila á Íslandi. Hrokafull fullyrðing að einhverra mati en henni til stuðnings er vert að benda á að PER gildi hennar í fyrri hluta deildarinnar er 52,1! PER er hannað til að sýna skilvirkni/færni leikmanna samanborið við meðalleikmann. Meðaltal deildarinnar miðast við PER=15 og bestu leikmenn NBA deildarinnar í dag eru að skora um 30 í PER – sem þýðir að bestu menn eru u.þ.b. tvöfalt “betri” en meðalmaður. Sé þetta skoðað með Lele til hliðsjónar þá má orða það svo að Lele sé 3,47 sinnum betri en meðalleikmaður Dominosdeildarinnar. Hún leiðir deildina í stigum, fráköstum, framlagi og stolnum boltum. Hún er reyndar önnur á eftir öðrum liðsmanni úrvalsliðsins í stoðsendingum.
 
Bryndís Guðmundsdóttir, Keflavík
Gríðarlega skilvirkur leikmaður sem leiðir deildina í eFG% með 55,1%. Langhæst íslenskra leikmanna deildarinnar í PER með 31,9. Fjórða sæti deildarinnar í stigum per sókn eða 1,154 og þriðja sæti í sóknarnýtingu. Hún er einnig í topp 10 yfir stig, fráköst og framlag.
 
Chynna Unique Brown, Snæfell
Chynna er annar besti leikmaður deildarinnar út frá mælikvörðum PER með 40,3. Öðru sæti deildarinnar í sóknarnýtingu og leiðir deildina í stigum per sókn með 1,312. Chynna er þriðja lægst í hlutfalli tapaðra bolta og í topp 10 í öllum helstu tölfræði þáttum, auk þess að leiða deildina í +/- gildum með +15,1.
 
Hildur Sigurðardóttir, Snæfell
Skorar ekki hátt á mælikvörðum á skilvirkni en framlag hennar til velgengni Snæfells í deildinni er ótvírætt. Hún leiðir deildina í stoðsendingum með 7,2 og í fjórða sæti yfir hlutfall stoðsendinga. Hlutfall stoðsendinga á móti töpuðum boltum er mjög hátt hjá henni eða 2,611 eða næsthæst í deildinni.
 
Skýringar á tölfræðigildum:
 
PPG – Meðaltal stiga skoraðra í leik.
 
RPG – Meðaltal frákasta í leik.
 
APG – Meðaltal stoðsendinga í leik.
 
eFG% (Effective Field Goal Percentage) – Mælikvarði á skotnýtingu sem leiðréttir fyrir þeirri staðreynd að þriggja stiga karfa er einu stigi verðmætari en tveggja stiga. T.d. ef annars vegar leikmaður A skorar 4 körfum í 10 tilraunum og þar af voru 2 utan þriggja stiga línunnar og hins vegar leikmaður B sem skorar 5 körfur í 10 tilraunum og engin þriggja stiga. Báðir leikmenn skora 10 stig og virk skotnýting þeirra því sú sama eða 50%.
 
PPP – Stig per sókn.
 
PER – Player Efficiency Rating er gildi sem mælir skilvirkni og frammistöðu leikmanna og var sett saman af John Hollinger sem lengi skrifaði fyrir ESPN en er nú framkvæmdastjóri Memphis Grizzlies. PER tekur saman það jákvæða og dregur frá það neikvæða í frammistöðu leikmanns og skilar mati henni með tillit til leiktíma.