Úrvalslið Ruslsins fyrir fyrri umferð Dominosdeildar karla er:
 
Martin Hermannsson, KR
Þeir sem ekki þekktu Martin Hermannsson fyrir þessa leiktíð gera það eflaust í dag. Drengurinn hefur átt þvílíkt og annað eins umbrotstímabil. Hann er í fimmta sæti deildarinnar yfir PER og annar af íslensku leikmönnunum. Gríðarlega skilvirkur leikmaður með 1,382 stig per sókn, þriðja hæsta í deildinni. Hann er einnig þriðji efstur í sóknarnýtingu með 61%. Hann leiðir deildina í +/- gildum með +18,4 og þriggja stiga nýtingu með 57,6% í 33 skotum. 
 
Michael Craion, Keflavík
Gríðarlega agaður og duglegur leikmaður. Þekkir sitt hlutverk og takmarkanir. Tekur varla skot utan teigs en innan hans er hann óstöðvandi og afburðarskilvirkur. Næsthæstur í deildinni í sóknarnýtingu með 62,2%. Leiðir deildina í PER með 34,7.
 
Ragnar Nathanaelsson, Þór Þorlákshöfn
Nat-vélin hrökk heldur betur í gang í nóvember og desember. Hann er sjötti í deildinni í PER með 26,5, leiðir deildina í hlutfalli sóknarfrákasta og er fimmti í hlutfalli heildarfrákasta. Ragnar er í fjórða sæti deildarinnar yfir varin skot og leiðir deildina í sóknarfráköstum með 6,7 í leik.
 
Terrence Watson, Haukar
Frábær leikmaður og stór hluti ástæðunnar fyrir því að nýliðar Hauka eru í fimmta sæti deildarinnar í dag. Hann leiðir deildina í stigum, fráköstum og framlagi. Hann er annar á eftir Craion í PER með 32,2. 
 
Elvar Már Friðriksson, Njarðvík
Besti íslenski leikmaður mótsins og mínu mati. Hann er í topp 4 í stigum, stoðsendingum og framlagi. Hann er með hæsta PER af íslensku leikmönnunum með 29,9 og mikill leiðtogi sem félagar hans í Njarðvík njóta góðs af. Elvar er í áttunda sæti í deildinni yfir fjölda þriggja stiga skota með 56 skot og hann nýtir þau vel með 50% nýtingu. Njótið þess að horfa á hann núna þar til hann fer til Bandaríkjanna í sumar.
 
Skýringar á tölfræðigildum:
 
PPG – Meðaltal stiga skoraðra í leik.
 
RPG – Meðaltal frákasta í leik.
 
APG – Meðaltal stoðsendinga í leik.
 
eFG% (Effective Field Goal Percentage) – Mælikvarði á skotnýtingu sem leiðréttir fyrir þeirri staðreynd að þriggja stiga karfa er einu stigi verðmætari en tveggja stiga. T.d. ef annars vegar leikmaður A skorar 4 körfum í 10 tilraunum og þar af voru 2 utan þriggja stiga línunnar og hins vegar leikmaður B sem skorar 5 körfur í 10 tilraunum og engin þriggja stiga. Báðir leikmenn skora 10 stig og virk skotnýting þeirra því sú sama eða 50%.
 
PPP – Stig per sókn.
 
PER – Player Efficiency Rating er gildi sem mælir skilvirkni og frammistöðu leikmanna og var sett saman af John Hollinger sem lengi skrifaði fyrir ESPN en er nú framkvæmdastjóri Memphis Grizzlies. PER tekur saman það jákvæða og dregur frá það neikvæða í frammistöðu leikmanns og skilar mati henni með tillit til leiktíma.