Michael Craion leiðir Dominosdeildina í PER með 32,2. Watson í öðru með 31,9 og “Fancy Vance” Cooksey hefur þotið upp töfluna síðustu umferðir og er nú í þriðja sæti með 30,0. Elvar Már leiðir Íslendingana með 27,7. Ragnar Nathanaelsson tekur enn framförum og hoppar úr 19. sæti þar sem hann var eftir 6 umferðir og er nú í því 14. með 23,2.
 
Emil Barja leiðir ekki bara deildina í stoðsendingum í leik með 8,0 heldur einnig í hlutfalli stoðsendinga á móti töpuðum boltum (A/TO) með 3,765. Það segir okkur að á móti hverjum töpuðum bolta hjá Emil gefur hann tæplega fjórar stoðsendingar sem er afburðagóð tölfræði. Emil er annar í deildinni í AST% með 40,9% á eftir Justin Shouse sem er með 42,8%. AST% gefur hugmynd um hversu margar af körfum liðsins koma til eftir stoðsendingu frá leikmanni.
 
Michael Craion leiðir deildina í hlutfalli heildarfrákasta (TRB%) með 42,6%. Pavel Ermolinskij leiðir í hlutfalli varnarfrákasta með 49,8% og Ragnar Nathanaelsson leiðir í hlutfalli sóknarfrákasta með 58,4%. Þessi tölfræði segir til um hlutfall frákasta sem leikmaður tekur, af þeim sem gefast, á þeim tíma sem hann er inni á vellinum.
 
Vance Cooksey leiðir deildina í Usg% með 34,3% sem gefur til kynna hve mikið af sóknum liðs eru nýttar af leikmanni.
 
Enn einn vitnisburðurinn um framlag Ragnars Nathanaelssonar er skilvirknin hans á vellinum. Hann tekur mikið af sóknarfráköstum, hann tapar boltanum mjög sjaldan og leiðir deildina í TOV% með aðeins 4,7%. Hann leiðir líka deildina í sóknarnýtingu eða með 67,3% eða töluvert fyrir ofan Craion sem er með 61,3%. Athygli vekur að eini bakvörðurinn ofarlega á lista í sóknarnýtingu er Martin Hermannsson í þriðja sæti með 60,4%. Oftast eru það leikmenn sem spila mikið í teignum eða eru lítið með boltann sem skora hæst í þessum flokki svo þetta ætti að gefa fólki hugmynd um hve stórkostlegt eintak af leikmanni hann Martin er.
 
Að lokum er það 16 ára gutti sem leiðir deildina í stigum per sókn. Það er að sjálfsögðu Kári Jónsson í Haukum með 1,435 en hann hefur heldur betur verið að springa út í vetur. X-factorinn Darri Hilmars er þó ekki langt undan með 1,434.