Keflvíkingar byrjuðu þessa leiktíð með látum. Jafnvel fyrir leiktíðina ullu þeir töluverðum usla með því að endurnýja ekki samning við Sigurð Ingimundarson, sem hefur margoft komið þeim á verðlaunapall, og sömdu þess í stað við bandarískan þjálfara.
 
Það var ljóst að nýjum formanni var alvara með að rífa upp karlaliðið úr þeirri lægð sem það var í á síðustu leiktíð. Undirbúningstímabilið hófst strax í sumar og mættu þeir tilbúnir til leiks í Lengjubikarnum, sem þeir rúlluðu upp nokkuð auðveldlega. 
 
Lengjubikarinn hefur ekki talist til stórmóta í áliti leikmanna deildarinnar og því menn hóflega sannfærðir af þessu afreki Keflvíkinga framan af. Fyrsti leikurinn í deildinni var hins vegar á móti Stjörnunni og búist við hörkuleik þar sem þessi lið hafa undanfarin ár eldað grátt silfur saman í úrslitakeppni. Stjarnan hins vegar rúllaði sér á bakið og lét Keflvíkinga vaða yfir sig á skítugum skónum. 
 
Mikið var gert úr frábærri frammistöðu Keflvíkinga eftir leikinn – töluvert meira en úr afburðaslökum leik Stjörnunnar. Nú sjö leikjum síðar í deildinni er Keflavík í öðru sæti með sjö sigra og eitt tap. Frábær árangur en ef rýnt er í tölurnar virðist krafturinn í Keflavíkurhraðlestinni vera að dvína. 
 
Hér að neðan er tafla sem sýnir þá leiki sem Keflavík hefur leiki í vetur við önnur lið sem eru í Dominosdeildinni. Bikarleikurinn gegn Grindavík er þarna einnig.
 
 
 
Keflvíkingar vilja spila hraðan bolta. Þó meðaltal þeirra í Pace sé aðeins 82,4 eða 4 undir meðaltali deildarinnar, þá er meðaltalið í þeim leikjum sem eru fullkomlega undir þeirra stjórn 85,9. KR-ingar drógu Keflvíkinga niður í 76,2 í leiknum sem þeir unnu í TM-höllinni, Njarðvík hélt þeim í 78,5 í leik sem vannst á þriggja stiga skoti á síðustu sekúndunum og að lokum héldu Haukar þeim í 78,5 í leik sem Keflavík vann með 5 stigum eftir 25-8 áhlaup Hauka í seinni hálfleik. 
 
Á myndinni hér að neðan sjáum við samanburð á leikhraða (blá lína) og mismun á stigaskori Keflavíkur og andstæðinga (græn lína). Dýfan í 7. leik er tapið gegn KR.
 
 
 
Keflavík á léttilega að geta verið með 90 stig að meðaltali í leik og var með 93 þar til topparnir tveir mættust í TM-höllinni. Þar skoruðu Keflvíkingar 70 stig en hafa skorað að meðaltali 68,7 stig að meðaltali síðan þá. Öll gildi sem mæla skilvirkni í sókn reka stoðum undir þetta. Þau eru í hærri kantinum framan af þar til liðið mætir KR-ingum eins og sést á myndinni hér að neðan. Á vinstri ásnum eru prósenturnar og á hægri ásnum eru stig per sókn (fjólublá lína).
 
 
Varnarleikurinn, sem út á við er þeirra helsti styrkur, er sveiflukenndur. Byrjar vel en tekur dýfur í leikjunum gegn Njarðvík (3) og KR (7). Í raun hefðu Keflvíkingar átt að tapa leiknum gegn Njarðvík miðað við þessa tölfræði, en drengur að nafni Gunnar Ólafsson sá til þess að svo varð ekki. Myndin hér að neðan sýnir glöggt þessa staðreynd. Ásarnir eru þeir sömu en grafinu hefur verið snúið við því há gildi í vörn eru slæm ólíkt í sókninni. 
 
 
 
Hvað þessu veldur vil ég ekki fullyrða um. Hvort það er að Andy Johnston sé að missa tökin á liðinu eða hvort liðið hafi einfaldlega verið ofmetið nú á fyrri hluta tímabilsins, skal ósagt látið. Staðreyndirnar eru samt sem áður þær að Keflvíkingar hafa unnið alla sína leiki fyrir utan tvo og þeir voru gegn liðum sem sitja með þeim í fjórum efstu sætunum. Fjórða liðið í þessum hópi unnu þeir naumlega. Í þeim leikjum sem Keflvíkingar léku þar til þeir mættu KR-ingum var aðeins eitt lið sem veitti þeim einhverja raunverulega mótspyrnu. Er mögulegt að raunveruleikatjekkið sem þeir urðu fyrir á eigin heimavelli gegn KR hafi losað límið sem heldur liðinu saman?
 
Keflvíkingar eru þó ekki þekktir fyrir að lúta mótspyrnulaust í gras og gefast upp. Framundan eru tveir erfiðir heimaleiki gegn Grindavík aftur og einnig Snæfelli svo þeim er verðugt verkefni fyrir hendi.