Sveiflukóngar voru á ferð í Hertz-Hellinum í Breiðholti í kvöld þegar ÍR og Keflavík mættust í Domino´s deild karla. Keflvíkingar fóru með 89-102 sigur af hólmi eftir að hafa grýtt frá sér 30 stiga forystu. Heimamenn í ÍR sýndu vígtennurnar endrum og sinnum en slæmu kaflarnir þeirra verða oftar en ekki það djúpir að menn rata ekki upp á yfirborðið að nýju. Craion með tvennu, ekkert nýtt á ferðinni nema bara magnaður leikmaður. Sveinbjörn Claessen fór svo fyrir ÍR-ingum með 21 stig.
Keflvíkingum var ekki til setunnar boðið í Hertz-hellinum heldur opnuðu með 0-12 upphafskveðju þar sem Arnar Freyr og Guðmundur splæstu í sinn þristinn hvor og Craion lét kné fylgja kviði með 6-0 teigsömbu og heimamenn tóku leikhlé. Matthías Orri hafði það svo af að búa til fyrstu stig heimamanna sem bitu betur og betur frá sér eftir þetta, Hjalti Friðriksson græjaði fjögur stig í röð og ÍR náði að minnka muninn í 19-26 en Keflvíkingar hnykkluðu þá vöðvana enn eitt skiptið og lokuðu fyrsta leikhluta 0-7 og staðan 19-33 að honum loknum.
Varnarleikur ÍR eða vöntun á slíku hefur verið milli tannanna á fólki þessa vertíðina en stöku sinnum sést glitta í umtalsverð gæði í liði ÍR og þau fengu aðeins að njóta sín í öðrum leikhluta. Þröstur Leó hafði fyrst hátt fyrir Keflavík í öðrum leikhluta en heimamenn náðu með góðri baráttu að minnka muninn í 36-44. Eftir þetta duttu heimamenn aftur úr fókus eins 15 ára gömul heimilisvideovél og Keflavík kláraði fyrri hálfleik með 3-11 dembu. Staðan 36-55 í hálfleik og Keflavík á góðri siglingu með að rjúfa 100 stiga múrinn þetta kvöldið.
Sveinbjörn Classen var með 10 stig hjá ÍR í hálfleik en þeir Guðmundur Jónsson og Michael Craion voru báðir með 12 stig í liði Keflavíkur.
Guðmundur Jónsson opnaði síðari hálfleik með Keflavíkurþrist og staðan 36-58. ÍR-ingar gátu þó töfrað fram sína eigin rispu og staðan 66-84 eftir þriðja leikhluta og þristur í upphafi þess fjórða minnkaði muninn í 69-84.
Calvin Henry reyndi hvað hann gat í kvöld en það dugði skammt, aðgerðir hans einfaldlega skyndibiti þegar þörf var á kjötsúpu. Craion og Lewis vörðu á kafla tvö skot í röð frá Henry og ekki laust við að nokkurrar óánægju hefði gætt í herbúðum stuðningsmanna ÍR með sinn mann þetta kvöldið.
Keflvíkingar hafa í sögulegu samhengi ekki verið þekktir fyrir að láta frá sér gott forskot en síðustu leiki hefur liðinu ekki tekist að ná upp 100% einbeitingu í fullar 40 mínútur og í kvöld nýttu ÍR-ingar sér þennan ljóður á leik Keflvíkinga og náðu að minnka muninn í 80-92. Á þessum kafla vottaði bara fyrir ansi beittum vígtönnum í Hertz en þær voru bara sýnilegar í of stuttan tíma og of seint. Baráttan var flott en Keflvíkingar sáu sóma sinn í því að bjarga tveimur stigum eftir að hafa verið 30 stigum yfir og misst það forskot niður um 20 stig, lokatölur 89-102.
Eftir leik kvöldsins er ÍR í fallsæti sem fyrr með 4 stig eins og KFÍ og Skallagrímur en Borgnesingar eiga leik til góða gegn Haukum annað kvöld. ÍR-ingar fá á sig 97,2 stig í leik, mest allra liða í deildinni og á meðan vörnin er hriplek þá er leiðin löng úr fallsætinu. Takist þessu sigursælasta liði íslensks körfuknattleiks að lengja góðu kaflana og þeir voru nokkrir í kvöld þá eru þeim flestir vegir færir í deildinni.
Keflvíkingar sitja sem fastast í 2. sæti deildarinnar á eftir KR og fundu sóknarfjölina í kvöld eftir nokkra leiki undanfarið sem gengu ekkert sérlega vel fyrir sig á sóknarendanum. Næsti leikur er gegn Snæfell sem í kvöld vann góðan sigur á Njarðvíkingum. Vörn Keflvíkinga er að reynast liðum deildarinnar þung enda Keflavík það lið sem fær fæst stig á sig eða 74,2 í leik og á meðan svo er verða Keflvíkingar ekki í neinu öðru en baráttu um toppsæti deildarinnar.
nonni@karfan.is