Kári Jónsson hjá Haukum hefur vakið verðskuldaða athygli manna fyrir leik sinn fyrir liðið í Dominosdeildinni þennan veturinn. Aðeins 16 ára gamall og strax orðinn einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins. Karl faðir hans, Jón Arnar Ingvarsson, hóf einnig feril sinn í efstu deild körfuboltans hér á Íslandi einmitt fyrir sama lið — og það sem meira er, á sama aldri og guttinn.
 
Jón Arnar hóf ferilinn (skv. KKÍ.is) leiktímabilið 1988-1989, þá 16 ára. Kári sonur hans hóf sinn feril í efstu deild í haust. Báðir feðgarnir voru því 16 ára og það gefur tilefni til samanburðar á þeim tveimur (sjá töflu neðst á síðunni).
 
Jón Arnar skoraði eilítið meira en strákurinn en Kári er hins vegar mun meiri og betri skytta en sá gamli. Kári er mun skilvirkari stigaskorari með 1,435 stig per sókn, en hann leiðir Dominosdeildina í þeim tölfræðiþætti. Jón Arnar var einnig grimmur frákastari af bakverði að vera en Kári ekki eins öflugur í þeim þætti. Það vekur þó furðu að Kári gefi umtalsvert fleiri stoðsendingar en pabbi hans á sínum tíma, því Jón Arnór er einn af bestu leikstjórnendum íslensks körfubolta, fyrr og síðar.
 
Það verður þó að taka tölfræði Jóns Arnars með fyrirvara þar sem þekking þeirra sem skráðu tölfræðina á þessum tíma var takmörkuð. Persónulega tel ég að fjöldi skráðra stoðsendinga á þessum árum sé stórkostlega vanmetinn. Mínútur voru einnig ekki skráðar að neinu ráði fyrr en seint á tíunda áratugnum og því mínútufjöldi Jóns áætlaður í þessum samanburði, sem hefur svo áhrif á flesta þætti háþróaðrar tölfræði hjá honum (stjörnumerkt í töflu).
 
Einnig verður að taka tillit til þess varðandi þennan samanburð að sá körfubolti sem spilaður var í lok níunda áratugsins var ekki á heimsmælikvarða. Menn þurftu ekki að leggja eins mikið á sig og í dag til að skara fram úr en deildin í dag er mun jafnari og samkeppnin milli íslenskra leikmanna orðin mun meiri, þökk sé 4+1 reglunni.
 
Frábærir leikmenn hér á ferð og verður gaman að fylgjast með þegar nær dregur vori hvernig samanburðurinn verður þá. Þeir feðgar hafa þá alla vega núna eitthvað til að ræða yfir jólasteikinni.