Fjölniskapparnir Arnþór Freyr Guðmundsson og Haukur Helgi Pálsson voru á ferðinni um helgina á Spáni. Haukur Helgi og félagar í Breogan máttu þola ósigur í LEB Gold deildinni sem er sú næstefsta á Spáni en Arnþór og Albacete höfðu góðan sigur í EBA deildinni sem er sú fjórða efsta.
 
 
Planasa NV 79-75 Breogan
Haukur Helgi Pálsson lék í 10 mínútur í leiknum og náði ekki að skora. Hann brenndi af einu skoti í teignum og einu þriggja stiga skoti og tók eitt frákast. Stigahæstur í liði Breogan var Alejandro Lopez með 20 stig. Breogan er í 4. sæti LEB Gold deildarinnar á Spáni með 6 sigra og 3 tapleiki.
 
Albacete 71-59 Alcázar
Arnþór Freyr Guðmundsson lék í tæpar 23 mínútur í liði Albacete og skoraði 8 stig og tók eitt frákast, hann var 0-2 í teignum og 2-7 í þristum og svo sökkti hann vitaskuld báðum vítunum sínum. Stigahæstur í sigri Albacete var Miguel Raez Basin með 16 stig. Albacete er nú í 8. sæti deildarinnar með 6 sigra og 3 tapleiki en B-lið Real Madrid vermir toppinn með 8 sigra og 2 tapleiki.
 
Mynd/ Arnþór Freyr hefur verið inn og út úr byrjunarliði Albacete það sem af er tímabili.