Maður hefur getað nánast horft á herra Hveragerði, Ragnar Nathanaelsson vaxa sem leikmaður með hverjum leik sem líður í Dominosdeildinni. Hann leiðir deildina í sóknarnýtingu, sóknarfráköstum og er ofarlega á blaði í vörðum skotum. Eitt vekur þó athygli þegar borin er saman tölfræði liðsins í Þorlákshöfn og leiktíminn sem Ragnar spilar — hann þarf að spila meira í fjórða leikhluta.
 
Ragnar spilar mikið í fyrsta og öðrum leikhluta og sést þá að gildi eins og sóknarfráköst og varin skot eru með hærra móti á meðan hann er inni á vellinum. Einna helst held ég að liðið finni mest fyrir þessum sóknarfráköstum sem fækkar umtalsvert í fjórða hluta þegar Ragnar spilar 6 mínútur að meðaltali. Takið einnig eftir því hvað tapaðir boltar kippast upp í öðrum og fjórða. Ragnar tapar aðeins 0,73 boltum í leik og 0,88 miðað við 40 mínútur leiknar. Allt kristallast þetta svo í þeirri staðreynd að liðið skorar 4% minna í fjórða hluta en það gerir í öðrum og 14% minna en í þriðja hluta.
 
Þjálfarateymi Þórs þyrfti að mínu mati að jafna út leiktímann hans og færa meira af honum í fjórða hluta þar sem liðinu blæðir, samkvæmt tölfræðinni.
 
Þú kennir ekki stærð segja fræðingarnir, en Nat-vélin virðist vera búin að læra allt hitt sem þarf með henni.