Njarðvíkingar tóku á móti bikarmeisturum Stjörnunnar í 16-liða úrslitum Poweradebikarkeppni karla í kvöld. Skemmtilegur leikur þarna á ferð og lokatölur sýndu ekki rétta mynd af leiknum framan af.
 
Stjarnan byrjaði vel og komst strax í 7-0 forystu en Njarðvíkingar komust hægt og rólega í gang og eftir að hafa átt erfitt uppdráttar allan leikhlutann komust þeir loksins yfir þegar ein mínúta var eftir af fyrsta leikhlutanum og 25-22 var staðan eftir 10 mínútur, en Njarðvík endaði leikhlutann á 13-2 áhlaupi rúmlega þrjár síðustu mínúturnar.
 
Njarðvíkingum gekk áfram vel í öðrum leikhluta og komust í 10 stiga forystu, 39-29, með þriggja stiga körfu frá Ágústi Orrasyni um miðbik leikhlutans en þessi mikli stemningsdrengur setti fjóra þrista í leiknum. En þá henti Stjarnan í sitt eigið áhlaup og endaði fyrri hálfleikinn á 2-12 syrpu og staðan 41-41 þegar liðin héldu til búningsklefa.
 
Liðin skipust á eins og tveggja stiga forystum framan af þriðja fjórðungi en á einni og hálfri mínútu um miðjan leikhlutann setti Stjarnan stöðuna úr 50-50 í 50-56 sér í hag. Sex stig eru þó lítill munur í körfubolta og Njarðvík minnkaði í tvö stig í lok þriðja leikhluta, 58-60, með þrist frá Ágústi Orrasyni og heimamenn voru því með vind upp á örfáa metra á sekúndu í bakið þegar haldið var inn í síðustu tíu mínúturnar.
 
Fyrstu mínútur fjórða leikhlutans var leikurinn hnífjafn en þegar staðan var 68-68 og um fjórar mínútur liðnar af fjórðungnum héldu liðin í sitthvora áttina. Næstu sex mínúturnar gerði Njarðvík 16-1 áhlaup og gerði á sama tíma út um leikinn. Síðustu mínútuna hélt Stjarnan í einhverja von en þeir áttu í raun ekki séns og Njarðvíkingar komnir í átta liða úrslit eftir 86-72 sigur á Stjörnunni.
 
Tölfræðin lýgur ekki
-Njarðvíkingar fengu 10+ stigaframlag frá 5 leikmönnum, auk þess sem einn skoraði 9 og annar 7 á (aðrir minna) meðan Stjarnan var með 10+ stigaframlag frá þrem mönnum og 7 frá einum (aðrir minna)
 
Umfjöllun: AE