KR vann í kvöld sinn níunda sigurleik í röð í Domino´s deildinni þegar röndóttir kjöldrógu vængbrotið lið Skallagríms 73-109. Fyrir leikinn í kvöld var ljóst að lykilmennirnir Páll Axel Vilbergsson, Oscar Bellfield og Grétar Ingi Erlendsson yrðu ekki með svo brekkan var brött hjá Borgnesingum.
 
 
Munurinn var ekki ýkja mikill framan af en þegar líða tók á leikinn sigldu KR-ingar örugglega framúr og gerðu endanlega út um leikinn á upphafsmínútum síðari hálfleiks.
 
KR-ingar refsuðu Borgnesinum grimmilega fyrir mistök á opnum velli en heimamenn bitu engu að síður frá sér og Ármann Vilbergsson splæsti í nokkra þrista neðan úr miðbæ en eins og áður greinir þá var um einstefnu að ræða í síðari hálfleik eins og lokatölurnar bera vott um.
 
Finnur Freyr Stefánsson hefur nú stýrt KR skútunni í 9-0 stöðu í deildinni á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í úrvalsdeild. Hópurinn er þéttur og þarna er enginn eigingjarn og skyldi engan undra að KR-ingum sé spáð velgengni á tímabilinu.
 
Þrír leikmenn liðsins gerðu 20 stig eða meira í kvöld, þeirra atkvæðamestur var Terry Leake Jr. með 25 stig en þeir Darri Hilmarsson og Martin Hermannsson bættu báðir við 20 stigum og þá voru þeir Ingvaldur Magni og Helgi Magnússon báðir með 10 stig. Hjá Skallagrím var Davíð Ásgeirsson stigahæstur með 14 stig skv. tölfræðiblaðinu. Hér að neðan hlekkjum við í tölfræði á vef KKÍ en höfum það fyrir satt að t.d. Ármann Vilbergsson var 6-8 í þristum svo eitthvað á eftir að taka til í þessu skjali sem við hlekkjum í hér að neðan.
 
 
Ómar Örn Ragnarsson var mættur í Fjósið í kvöld og tók meðfylgjandi mynd.