Nigel Moore fer ekki langt því hann hefur nú samið við ÍR í Domino´s deild karla eftir að Njarðvíkingar leystu hann undan samningi til þess að geta gert taktískar breytingar í Ljónagryfjunni. Örvar Þór Kristjánsson var aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga á síðustu leiktíð en stýrir nú ÍR-ingum og þekkir því vel til Moore og réði leikmanninn í Breiðholtið. Calvin Lennox Henry mun því yfirgefa ÍR-inga en hann hefur ekki staðið fyllilega undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar.
 
 
„Þegar sá möguleiki kom upp að fá Nigel var það einfaldlega tækifæri sem við gátum ekki látið frá okkur fara. Nigel er klassa leikmaður sem getur leyst margar stöður og umfram allt hefur hann mikla reynslu og er algjör topp karakter. Hann mun hjálpa okkur í þeim mikla slag sem framundan er,“ sagði Örvar við Karfan.is áðan og telur ráðningu Moore vera gæfuspor.
 
„Gengi liðsins hefur verið undir okkar væntingum en það er engan bilbug á okkur að finna. Við ætlum okkur að koma sterkir inn í nýtt ár og teljum Nigel vera þann trausta hlekk sem vantar í keðjuna. Hvað Calvin varðar þá þökkum við honum fyrir sitt, hann stóðst ekki væntingar en var að bæta sig en það var aldrei spurning að skipta er Nigel kom inn í myndina. Þekkt stærð og það skemmir ekki að við Nigel höfum unnið áður saman. Ég veit það vel að þessi ráðning er gæfuspor fyrir okkur og Nigel verður ekki fyrir vonbrigðum í þessu flotta umhverfi í Breiðholtinu.“
 
Nigel Moore gengur til liðs við ÍR í 10. sæti Domino´s deildarinnar, liðið hefur unnið 2 leiki af 11 þennan fyrri hluta mótsins.