Nigel Moore leikmanni UMFN hefur verið gert að stíga til hliðar og mun hann leika sinn síðasta leik fyrir félagið í kvöld gegn Stjörnunni. Að sögn Páls Kristinssonar varaformanns kkd UMFN þá tók það sárt að fara í þessar aðgerðir en Njarðvíkingar telja sig vanta meira “kjöt í teiginn”  ”Nigel er gríðarlega góður leikmaður og ekki síður liðsmaður jafnt utan sem innan vallar og því var þessi ákvörðun ekki auðveld fyrir okkur.”  sagði Páll í viðtali við Karfan.is
 
Nigel hefur í vetur skorað 16 stig og tekið 9 fráköst á leik fyrir Njarðvíkinga og er frákastahæstur leikmanna liðsins. “Hann tók þessum fréttum af slíkri fagmennsku að ég hef aldrei orðið vitni af öðru eins. Hann skilur okkar afstöðu fullkomlega þó svo að hann hefði auðvitað viljað klára þetta með okkur.  Það sýnir líka hversu mikill fagmaður hann sé að hann vilji taka síðasta leikinn með okkur í kvöld.” sagði Páll enn fremur.  
 
Nigel sem var einnig þjálfari kvennaliðs UMFN mun því hverfa á brott í því starfi einnig og ekki er orðið ljóst hvernig þau mál munu þróast en liðið er sem stendur á botni Dominos deildarinnar með 4 stig. 

Karfan.is ræddi einnig við Einar Árna Jóhannsson þjálfara um stöðuna:

 
„Þetta er hlutur sem hefur verið í vangaveltum hjá okkur síðustu 5-6 vikur og ástæðan er mörgum kannski nokkuð skýr. Eftir að við setjum saman lið síðasta haust fáum við óvænt inn Loga Gunnarsson og fáum þar öflugan leikmann í vænginn. En við vorum vissulega líka með öfluga vængmenn fyrir í Ágústi, Óla og Maciej og því orðið ansi þröngt á þingi. Framan af voru Maciej og Ólafur Helgi ekki í búning sökum meiðsla og veikinda en þeir eru komnir til baka og svo lendum við í því að Snorri Hrafnkelsson slítur krossbönd og er ekki meira með í vetur og því hlutföllin orðin ansi skökk,“ sagði Einar Árni og segir eftirsjá í Moore.
 
„Við sáum glöggt að jafnvægisleysið í okkar sóknarleik var orðið ansi mikið. Við vorum samt með leikmann sem okkur leið vel með innan hópsins, Nigel er félagsmaður og nýtur mikils trausts svo við reyndum að vinna með þetta eins vel og hægt er en þetta varð einfaldlega að gerast núna eða ekki. Á fimmtudag þegar þetta er orðið ljóst gerðum við okkur grein fyrir því að við gætum leikið kanalausir í kvöld gegn Stjörnunni en hann hélt bara áfram að undirbúa sig fyrir leikinn í kvöld og ætlar að klára sinn tíma með Njarðvík með stæl.“
 
Einar sagði að ákvörðun félagsins hefði ekki komið Moore í opna skjöldu: „Hann skilur okkar afstöðu, við þurfum meiri ógn inn í teiginn og höfum keyrt heldur mikið á leikmönnum eins og Friðriki Stefánssyni. Fyrir tímabilið ætlaði hann sér örugglega ekki að spila leiki þar sem hann væri inná í fullar 40 mínútur eins og hefur komið á daginn. Friðrik mun nýtast okkur betur í færri mínútum og með betra jafnvægi á okkar leik ætti þetta að opna fyrir möguleika fyrir fleirri leikmenn. Við erum svo spenntir að fá nýjan leikmann í þetta hjá okkur,“ sagði Einar en gera má ráð fyrir því að sá leikmaður verði fenginn til að þétta teiginn og valda meiri ógn á sóknarenda Njarðvíkinga.