Guðjón Skúlason er sá leikmaður sem skorað hefur flestar þriggja stiga körfur í íslensku úrvalsdeildinni eða 965 samtals í deildarkeppninni. En met eru sett til þess að brjóta þau eða bæta og nú er metið hans Guðjóns komið í stórfellda hættu!
 
 
Páll Axel Vilbergsson þarf aðeins 16 þriggja stiga körfur til viðbótar til þess að jafna met Guðjóns og sú sautjánda verður nýtt met og mun gera Pál Axel að þeim leikmanni sem skorað hefur flesta þrista í efstu deild frá upphafi.
 
Páll Axel hefur síðustu tímabil verið mikið frá vegna meiðsla en þegar hann er með eru jafnan nokkrir þristar sem liggja í valnum. Dugir honum þessi leiktíð til þess að velta Guðjóni úr sessi?
 
Flestar þriggja stiga körfur í úrvalsdeild:

Guðjón Skúlason – 965
Páll Axel Vilbergsson – 949
Teitur Örlygsson – 742
Magnús Þór Gunnarsson – 727
Kristinn Friðriksson – 673