Nú er árið 2013 senn á enda og 2014 tekur við keflinu. Er þá ekki réttast að líta aðeins yfir farinn veg og sjá hvaða fréttir voru mest lesnar eða vinsælustu fréttir ársins 2013 hér á Karfan.is.
 
Hér að neðan fer topp 5 listinn yfir mest lesnu fréttir ársins á Karfan.is:
 
Hér er sigurvegarinn fundinn, langmest lesna frétt Karfan.is árið 2013 en síðla októbermánaðar setti Kjartan Atli Kjartansson leikmaður Stjörnunnar og yngri flokka þjálfari saman pistil sem hann birti hjá sér á Facebook. Við á Karfan.is fengum heimild hjá Kjartani til að endurbirta pistilinn og með þessum líka mögnuðu viðbrögðum.
 
Í 8-liða úrlsitum á síðustu leiktíð mættust Stjarnan og Keflavík. Jovan Zdravevski fékk þá reisupassann eftir einn leik liðanna eftir vistaskipti sín og Magnúsar Gunnarssonar. Yfirlýsing Jovans vegna málsins var næstmest lesna frétt ársins 2013.
 
Á dögunum varð uppi fótur og fit í Borgarnesi, fyrst var Pálmi Þór Sævarsson rekinn og daginn eftir ráðinn. Þessi frétt er þriðja mest lesna frétt Karfan.is árið 2013.
 
Því vill bregða við að fréttir fái töluverðan lestur ef Ólafur Ólafsson Grindvíkingur kemur við sögu. Í þessu tilfelli var honum umhugað um meint ljósaböð vinar síns og liðsfélaga Jens Valgeirs Óskarssonar og var þetta fjórða mest lesna frétt ársins.
 
Frétt sem við hlupum aðeins á okkur með…kemur fyrir. Höfðum hreinlega ekki unnið heimavinnuna nægilega vel en frammistaða Ragnars í téðum leik var engu að síður athyglisverð.
 
Þar hafið þið það, topp fimm mest lesnu fréttirnar á Karfan.is árið 2013. Hlutur kvenna á topp 5 listanum er enginn þetta árið ef frá er talið að í fréttinni „Óli Katrínar Jens Valgeir“ er minnst á konu sem ekkert hefur með körfuknattleik að gera. Sjáum hvort árið 2014 hafi ekki meira jafnræði í för með sér. Þangað til, gleðilegt ár!