Það er ekki oft sem við sjáum leikmann fá dæmda á sig tæknivillu fyrir óviðeigandi augnaráð í átt til dómara en þannig varð það í kvöld þegar Ólafur Ólafsson fékk tæknivillu í viðureign Keflavíkur og Grindavíkur í Poweradebikarnum. Við sjáum það reglulega að ögranir og aðrar augngotur endi með refsingu í t.d. NBA deildinni en minna af því hér í íslenska boltanum.
 
 
Þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka í kvöld skoraði Ólafur góð tvö stig fyrir Grindvíkinga en vildi örugglega meira fyrir sinn snúð og eftir að hann hafði afgreitt boltann í netið sendi hann öðrum dómara leiksins ansi brúnaþunga störu og uppskar fyrir vikið tæknivillu. Fyrr í leiknum hafði Ólafur verið aðvaraður af dómurum leiksins og skautaði því á hálum ís þegar svo tæknivillan var gefin.
 
Þessar villur sjáum við ekki oft en skv. leikreglunum sem farið er eftir hér þá segir m.a. í skilgreiningunni á tæknivillu:
 
„Viðhafa móðgandi orð eða látbragð sem líklegt er að móðga eða æsa upp áhorfendur.“
 
Og svo…
 
„38.3.2 Tæknivilla á liðsmann er villa fyrir að koma fram af óvirðingu eða snerta af óvirðingu dómara,
eftirlitsmann, starfsmenn ritaraborðs eða mótherja í tilvikum sem eru stjórnunarlegs eðlis.“
 
Tæknivillan sem Ólafur hlaut í kvöld hlýtur þá að vera byggð á þeim grundvelli að hann hafi komið fram af óvirðingu…auk þess að vera á áðurnefndum þunnum ís. Hvort framhald verður á tæknivillum af þessu tagi skal ósagt látið en það þarf ekki að marglesa regluverkið til að sjá að heimildin fyrir svona dómum virðist vera til staðar og því ættu menn ekki að reka upp stór augu þegar þeir reka upp stór augu og fá fyrir vikið tæknivillu.