Kristinn Pálsson og félagar í Stella Azzura Academy á Ítalíu spiluðu nú um helgina í forkeppnismóti U18-Euroleague . Mót þetta er eitt af fjórum þar sem bestu U18 lið frá Evrópu mætast og sigurvegarar úr hverju móti spila svo til úrslita í Milan á næsta ári.  Lið eins og Bayern Munich, Sarajevo, Cibona Zagreb og Seville svo einhver séu nefnd voru mætt í þessu móti.  Svo fór að Stella Azzura og Seville spiluðu úrslitaleikinn þar sem Seville hafði sigur 67:53 eftir að lið Kristins hafði byrjað vel og verið 10 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta.  ”Við hættum að berjast og þeir tóku öll völd í frákastabaráttunni í þessum leik. Hefðum við bara haldið áfram að berjast hefði þessi leikur orðið okkar.” sagði Kristinn í stuttu spjalli. 
 
“Við vorum með lang yngsta liðið í mótinu flestir okkar vorum 17 ára plús tveir lánsmenn. En þetta er besti árangur liðsins frá upphafi í þessari keppni og við vorum bara 10 stigum frá því að komast í úrslitin.” bætti Kristinn við. 
 
Kristinn eins og kannski flestir vita er Njarðvíkingur en dvelur nú á Ítalíu við nám og æfir af krafti hjá Stella Azzura.  ”Mér gekk persónulega heilt yfir vel þó ég hafi ekki verið að skora mikið þá var ég að spila góða vörn og kom með baráttu af bekknum.  Í fyrstu tveimur leikjunum spilaði ég bara í fjórða leikhluta og í framlengingu. Þar setti ég niður mikilvæg víti og hirti nokkur mikilvæg fráköst þar sem við sigruðum Sarajevo.  Í leik á eftir því erum við klaufar og töpum gegn Siena þar sem við spilum bara mjög illa.” sagði Kristinn enn fremur. 
 
Kristni virtist vaxa ásmegin þegar leið á mótið og var komin í byrjunarliði Stella í úrslitaleiknum og undan úrslitum. Í úrslitaleiknum skoraði hann 8 stig og tók 3 fráköst á þeim 20 mínútum sem honum voru úthlutaðar. “Úrslitaleikurinn gekk okkur ekki í hag og við töpuðum en endum í 2. sæti sem er eins og ég sagði besti árangur liðsins frá upphafi.”