KR kom mörgum á óvart í kvöld með nokkuð öruggum og glæsilegum varnarsigri á Keflavík í vesturbænum í kvöld, 77-67.  KR hafði fyrir leikinn aðeins unnið 4 leiki á meðan Keflavík stóð eitt á toppi deildarinnar með 10 sigra.  Sigrún Ámundardóttir fór fyrir sínu liði í kvöld með baráttu og hörku góðum varnarleik, hún skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og stal 6 boltum í leiknum. Ebone Henry var ekki langt á eftir með 23 stig og 15 fráköst.  Varnarleikur KR var til algjörrar fyrirmyndiar í kvöld, Keflavík skoraði 12 stig í öðrum leikhluta og 11 stig í þeim þriðja þangað til þær duttu í gang í þeim fjórða.  Það var hins vegar alltof seint og þrátt fyrir nokkuð spennandi lokamínútur þá var munurinn einfaldlega orðinn of mikill. 

 
 

KR mætti nokkuð ákveðnari til leiks, þær voru að hitta mjög vel strax frá fyrstu mínútu og höfðu náð 12-6 forskoti þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður.  KR var að spila mun ákveðnari varnarleik og uppskáru fyrir vikið mun fleiri villur en stöllur þeirra í Keflavík.  Sá munur var hins vegar ekki að sjá á stigatöflunni þegar fyrsta leikhluta lauk en þá munaði aðeins tveimur stigum á liðunum, 20-18.  KR hafði hins vegar fengið á sig 6 villur en Keflavík ekki eina.  

 

Andy Johnston var innan við mínútu að taka leikhlé eftir að annar leikhluti byrjaði og var augljóslega ekki ánægður með liðið.  KR hafði þá skorað fyrstu stig leikhlutans og leiddu því með fjórum stigum, 22-18.  KR hélt uppteknum hætti næstu mínútur og Ebone Henry setti 6 stig á innan við mínútu sem jók mun KR í 8 stig, 30-22, þegar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum.  Svæðisvörn Keflavíkur var að reynast skyttum KR ágætlega því þær nýttu sér opnu færin í hornunum og settu hvern þristinn á fætur öðrum.  Þegar rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks höfðu þær sett 7 þrista úr 14 tilraunum en Keflavík hafði aðeins sett einn úr 9 skotum.  KR nýtti sér þennan slaka leik Keflavíkur til hins ýtrasta og höfðu 13 stiga forskot þegar gengið var til klefa í hálfleik, 43-30. 

 

Stigahæst í liði KR í hálfleik var Sigrún Ámundardóttir með 16 stig og 7 fráköst en næstar voru Ebone Henry með 13 stig og 8 fráköst og Björg Einarsdóttir með 10 stig.  Í liði Keflavíkur var Porche Landry stigahæst með 14 stig en næstar voru Bryndís Guðmundsdóttir með 9 stig og Sara Rún Hinriksdóttir með 3 stig.  

 

Byrjun Keflavíkur á seinni hálfleik var ekki góður fyrirboði á það sem koma skyldi, þær héldu áfram að henda frá sér boltanum og þegar tvær mínútur voru liðnar tókst þeim að henda frá sér boltanum innan eigin teigs, á leiðinni í hraðaupphlaup, brjóta af sér þannig að KR fékk tvö stig og víti.  Munurinn var því kominn upp í 18 stig þegar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, 48-30.    Andy Jonston tók þá leikhlé fyrir Keflavík.  Það leikhlé dugði skammt því aðeins tveimur mínútum síðar tók hann aftur leikhlé, staðan í þriðja leikhluta var þá 12-0 fyrir KR og munurinn kominn upp í 25 stig, 55-30.  Fyrsta stig Keflavíkur í seinni hálfleik komu stuttu seinna af vítalínunni frá Söndru Þrastardóttur, Keflavík hafði þá ekki skorað í rúmar fimm mínútur.  Þó að Keflavík næði að lauma inn einni og einni körfu þá var það aldrei nálægt því að vera nóg til þess að minnka muninn sem stóð í 26 stigum þegar ein og hálf mínúta var eftir af þriðja, 63-37.  Porche Landry setti þrjú síðustu stig leikhlutans og minnkaði forskot KR aftur niður í 22 stig þegar einn leikhluti var eftir, 63-41.  

 

 

Það var allt annað Keflavíkurlið sem mætti til leiks í fjórða leikhluta, þær stóðu vaktina í vörn og skoruðu fyrstu 6 stig leikhlutans, 63-47.  Yngvi tók svo leikhlé fyrir KR þegar Porche Landry skoraði úr hraðaupphlaupi en munurinn stóð ennþá í 16 stigum, 65-49, og fimm og hálf mínúta eftir.  Þegar fjórar mínútur voru eftir var Keflavík farið að pressa ansi hátt og voru búnar að stela nokkrum boltum þar á undan.  Björg Einarsdóttir svaraði því með glæsilegum og háum þrist sem söng í netinu, 70-51 og þrjár mínútur til leiksloka.  Keflavík splæsti í næstu 10 stig leiksins á einni og hálfri mínútu og allt í einu varð leikurinn spennandi, 70-61.  Yngvi tók þá leikhlé fyrir KR til þess að reyna að stoppa í götin.  Munurinn á liðunum var kominn niður í 5 stig þegar 40 sekúndur voru eftir en Bryndís Guðmundsdóttir hafði þá sett þrist á ferðinni, 72-67.  Ebone Henry svo gott sem kláraði leikinn þegar hún komst inní sendingu Keflavíkur þegar 30 sekúndur voru eftir og tækifæri gestana því orðin of fá.  KR hafði því á endanum glæsilegan 10 stiga sigur á toppliði Keflavíkur, 77-67.  

Tölfræði leiksins 

gisli@karfan.is

mynd úr safni – nonni@karfan.is