Keflvíkingar juku bilið milli sín og Grindavíkur í fjögur stig í kvöld þegar liðin mættust í Domino´s deild karla og í annað sinn á fjórum dögum. Líkt og í bikarleiknum var lítið skorað en sterk rispa Keflvíkinga í fjórða leikhluta reið baggamuninn. Satt best að segja hafa slagir þessara körfuboltarisa oft verið áferðarfallegri, skorið hærra og nýtingin betri en við kveðjum aldrei leik á parketinu án þess að finna sigurvegara og í kvöld höfðu heimamenn það af að klára verkið sem vafðist fyrir þeim á mánudag, 77-63. Keflvíkingar eru nú í 2. sæti deildarinnar með 16 stig en Grindvíkingar í 3. sæti með 12 stig.
 
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fékk snemma tvær villur í fyrsta leikhluta og var allt annað en sáttur við sitt hlutskipti er hann hélt á tréverkið í hvíld hjá Grindvíkingum. Clinch kom gestunum engu að síður í 3-6 með þriggja stiga körfu en þá hófst 11-0 kafli heimamanna með þriggja stiga körfu frá Guðmundi Jónssyni og sá Sverrir Þór þann kostinn vænstan að splæsa í leikhlé þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta hluta og staðan 14-6 fyrir heimamenn.
 
Keflvíkingar héldu áfram á gandreið sinni eftir leikhlé Grindvíkinga og náðu alls 16-0 rispu áður en Ómar Örn laumaði inn tveimur stigum fyrir gestina. Keflavík leiddi 21-12 eftir fyrsta leikhluta og höfðu ekkert voðalega mikið fyrir því.
 
Líklega vantaði frostlögur á Grindvíkinga í fyrri hálfleik því Keflavík hélt bara áfram að þjarma að gestum sínum, svo sem vitað að það þyrfti lítið að kynda heimamenn fyrir þennan slag eftir bikartapið. Keflvíkingar opnuðu með 8-2 dembu í öðrum leikhluta, svæðisvörn Keflvíkinga virkaði vel og Grindvíkingar voru ekki að finna dampinn í langskotunum með aðeins einn þrist í sjö tilraunum.
 
Ólafur Ólafsson tók það verkefni á sínar herðar að nudda smá yl í Grindavíkurliðið en hann var stigahæstur gestanna með 13 stig í hálfleik. Ólafur fór tvisvar endalínuna gegn svæðisvörn Keflavíkur sem gáfu samtals fimm stig en Darrel Lewis minnti á sig í herbúðum Keflavíkur með fimm stigum í röð og kom heimamönnum í 40-26. Grindvíkingar ætluðu ekki að láta skilja sig eftir í reyk og lokuðu fyrri hálfleik með 2-9 syrpu og staðan því 42-35 í hálfleik.
 
Jón Axel Guðmundsson opnaði síðari hálfleikinn með Grindavíkurþrist og minnkaði muninn í 42-38, skömmu síðar mætti Ólafur Ólafsson með sitt þriðja varða skot úr höndum Michael Craion og virðist Óli vera búinn að lesa „Craion-bókina“ til enda. Jóhann Árni Ólafsson fann svo fjölina og sendi niður þrist í sinni sjöttu tilraun og Grindvíkingar komust svo yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 3-6 þegar Hilmir Kristjánsson kom með þrist og breytti stöðunni í 51-53. Keflvíkingar heimiluðu gestunum ekki að vera lengi við stýrið því Þröstur Leó Jóhannsson sendi niður flautukörfu við endalínuna og Keflavík leiddi 56-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Michael Craion var drjúgur í upphafi fjórða leikhluta og Keflvíkingar tóku á 7-0 rás sem lauk með villu og körfu að auki frá Craion en þá tók Sverrir Þór leikhlé fyrir Grindvíkinga og staðan orðin 63-53. Grindvíkingum tókst þó að moka niður tveimur stigum eftir jafn margar mínútur í fjórða leikhluta en sofandaháttur gestanna í upphafi fjórða var þeim dýrkeyptur.
 
Keflvíkingar gerðu vel að halda í muninn sem þeim tókst að skapa í upphafi fjórða leikhluta og leiddu 68-58 þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka. Flottur varnarleikur heimamanna hélt Grindavík í 10 stigum í fjórða leikhluta og Michael Craion átti sinn þátt í þessum lokasprett og var Grindvíkingum illviðráðanlegur.
 
Grindvíkingar gerðu vel fyrri hluta leiksins að gera leik úr þessu á ný eftir að hafa lent undir 40-26 í fyrri hálfleik. Ekki oft sem maður sér endurkomur í gamla Sláturhúsinu (nú TM-Höllin). En værukærð Íslandsmeistaranna á upphafsmínútum fjórða leikhluta varð þeirra banabiti og Keflavík kláraði vel. Tvennutröllið Craion stimplaði sig inn enn eina ferðina, 25 stig og 19 fráköst, hann er naut! Darrel Lewis hnoðaði saman tvennu gegn gamla félaginu sínu með 18 stig og 11 fráköst og þá átti Valur Orri Valsson flottar rispur með 11 stig og 5 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson öflugastur með 16 stig og 8 stoðsendingar og baráttu sem fleiri hefði betur tekið sér til fyrirmyndar. Lewis Clinch var einnig með 16 stig og 8 stoðsendingar en Þorleifur Ólafsson komst ekki á blað, brenndi af tveimur teigskotum og sex þriggja stiga skotum og Jóhann Árni Ólafsson var 1-8 í þristum og tók aðeins tvö teigskot. Ef Jóhann og Þorleifur láta ekki betur að sér kveða á útivelli eins og Keflavík er voðinn vís og sú varð raunin.
 
 
Byrjunarliðin:
Keflavík: Arnar Freyr Jónsson, Gunnar Ólafsson, Guðmundur Jónsson, Darrell Lewis, Michael Craion.
Grindavík: Lewis Clinch, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Sverrir Þór Sverrisson – þjálfari Grindavíkur
 
 
Valur Orri Valsson – leikmaður Keflavíkur