Ísfirðingar mættu með brjóstkassann þaninn í Garðabæinn í kvöld eftir flottan sigur á Snæfelli í síðustu umferð. Stjörnumenn hafa verið duglegir í stigasöfnun upp á síðkastið en vafalaust hefur farið um margan stuðningsmanninn er þeir sáu að Meistari Shouse sat á bekknum í borgaralegum klæðum með hækjur sér til halds og trausts. Ekki nóg með það heldur var Marvin hvergi sjáanlegur og Litli-Marv ekki í búning. Erfitt að brúa svona stór skörð og spurning hvort um algeran forsendubrest væri að ræða fyrir áframhaldandi stigasöfnun.
 
 
Athygli vakti að Garðbæingar buðu ekki upp á neina kynningu á liðunum fyrir leik. Hljóðneminn fannst ekki í húsinu síðast og Herra Garðabær stóð eins og kennari fyrir framan áhorfendur og kynnti liðin í það skiptið. Að mati undirritaðs mjög töff ,,redding“ og mikið betra en ekki neitt. Það að kynna ekki leikmenn á nokkurn hátt fyrir leik í efstu deild er einfaldlega ekki boðlegt.
 
Ísfirðingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og heimamenn áberandi vængbrotnir. Ágúst hélt áfram sem frá var horfið í síðasta leik og setti fyrstu 5 stig leiksins . Fleiri úr liði gestanna fylgdu í kjölfarið og það datt allt sem þeir settu í loftið. Vörn heimamanna að sama skapi döpur og leikur þeirra hinu megin stirðbusalegur. Teitur tók leikhlé í stöðunni 7-18 og það bar tilætlaðan árangur. Stjörnumenn hresstust mjög, stálu nokkrum boltum og hinir ungu Stjörnupiltar byrjuðu að fylla betur í skörðin og tóku á 10-0 sprett. Ísfirðingar enduðu leikhlutann hins vegar sterkt, staðan 17-24 að honum loknum.
 
Dagarnir Sigurður og Kár ásamt Tómasi héldu áfram að fylla betur í skörðin í öðrum leikhluta. Vörnin varð öllu betri en einnig snöggkólnuðu gestirnir og Fannar Helga smellti þristi fyrir heimamenn og jafnaði leikinn í 32-32. Staðan í hálfleik var svo 40-41 og við blasti spennandi síðari hálfleikur.
 
Þriðji leikhluti var mjög kaflaskiptur. Stjörnumenn mættu eldsprækir úr klefanum og komu upp stemmningu í vörninni. Þeir tóku aftur á 10-0 sprett og gestirnir klaufalegir í öllum sínum aðgerðum. Staðan allt í einu orðin 50-41. En gestirnir ákváðu þá að vera með og svöruðu með 1-12 kafla, 51-53. Að loknum leikhlutanum höfðu þó Stjörnumenn 3 stiga forskot, 60-57.
Þegar um þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta var hins vegar ljóst að áhorfendur myndu ekki fá æsispennandi lokamínútur. Junior tók upp á því að raða þristum líkt og það væri eins og hver önnur færibandavinna! Hann smellti þremur á örskammri stundu og Kjartan Atli bætti tveimur við í kjölfarið, staðan 75-63. Skömmu síðar setti Kjarri einn enn, staðan 84-66 og úrslitin svo gott sem ráðin. Vörn Ísfirðinga gat svo sem ekki gert mikið betur í sumum tilfellum en einnig voru heimamenn að koma þægilegum ódýrum stigum á töfluna undir körfunni. Sóknarlega virtist kvótinn einnig vera búinn, flæðið var ekkert og Jason Smith gleymir því oft og tíðum að körfubolti er liðsíþrótt, einkum þegar gefur á bátinn. Það skilar sér bara í erfiðum skotum sem fara ekki rétta leið og birtist sem léleg nýting á ,,stattinu“. Niðurstaðan öruggur Stjörnusigur 91-77.
 
Hinir ungu Stjörnupiltar eiga sannarlega hrós skilið fyrir að halda uppi heiðri síns meiðslumhrjáða félags. Sigurður Dagur var í byrjunarliðinu í kvöld og skilaði flottum leik, setti 14 stig, með fína nýtingu og tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Tómas skilaði fínum 11 mínútum, varðist vel, setti 4 stig og tók 6 fráköst. Dagur Kár hefur reyndar átt betri daga en skilaði þó 13 stigum og gaf heilar 12 stoðsendingar og hirti 6 fráköst með sterkum lokasprett. Ekki má þó gleyma gaurnum á færibandinu, Junior Hairston, sem átti frábæran leik, setti heil 38 stig og tók 14 fráköst!
Vafalaust talsvert svekkjandi fyrir Ísfirðinga að nýta ekki ágætt tækifæri á að hirða dýr 2 stig á útivelli gegn vængbrotnum Stjörnumönnum. En atkvæðamestur þeirra var Mirko með 20 stig og 13 fráköst og Ágúst gerði vel með 17 stig og 9 fráköst. Jason Smith lauk leik með þrefalda tvennu, 18 stig, 10 stoðsendingar og 10 fráköst. Kannski bjánalegt að gagnrýna manninn með slíka tölfræði en nýtingin hjá honum ekki góð eins og fram hefur komið.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson