Pete Philo fyrrum bakvörður Njarðvíkingar ættu flestir að kannast við. Pete lék með Njarðvíkingum tímabilið 2001-2002 og varð meistari með liðinu það árið. Pete hafði þau einkenni að hann kom til dyra eins og hann var klæddur og virðist gera enn.  Nokkuð kokhraustur og fáir ef nokkur leikmaður sem hingað hefur komið haft jafn mikla trú á sjálfum sér. Stórt egó myndu kannski flestir kalla það og líklega ef hann yrði spurður myndi hann jánka því og glotta við. 
 
Njarðvík var síðasta liðið sem Philo spilaði með á sínum atvinnumannaferli. Hann lék á þó nokkrum stöðum í heiminum og var í Danmörku um tíma áður en hann söðlaði til Íslands.  Síðan þá hefur Pete haldið áfram að starfa við körfuknattleik á einn eða annan hátt. Pete hefur verið með körfuboltabúðir á Ítalíu fyrir sterkustu leikmenn Evrópu. Þar koma útsendarar frá öllum NBA liðunum og skoða leikmenn og hafa margir af þeim stóru farið einmitt í gegnum þessar búðir hjá Philo og endað í NBA deildinni. Síðan þá hefur Pete verið ráðinn útsendari hjá Minnesota Timberwolves og sem stendur starfar hann sem slíkur hjá einu efsta liði deildarinnar Indiana Pacers. 
 
“Ég sé um að leita af leikmönnum út um allan heim og einnig er ég að skoða háskólaboltann.  Þetta er svona 50/50 sem mitt starf skiptist í fyrir Pacers. Minn yfirmaður er Kevin Pritchard en svo er það náttúrulega Larry Bird sem stjórnar öllu hjá Pacers og hann fylgist vel með öllu starfinu.  Þetta hófst náttúrulega allt þegar ég var með leikmannabúðirnar í Treviso á Ítalíu. Þar komst ég í gríðarlega góð sambönd og um það snýst þessi heimur sem ég starfa í. Svo er ég með mitt eigið fyrirtæki sem heitir GPT sports og þar erum við með alskonar viðburði og fljótlega fer af stað hjá okkur bæði þjálfara og útsendaranámskeið þar sem þeir sem hafa áhuga á geta fengið að kynnast og lært það hvernig sá heimur virkar.”
 
En fylgist Pete eitthvað með íslenska boltanum?
“Það er mjög erfitt fyrir mig að fylgjast vel með á Íslandi þar sem stundaskráin mín er gríðarlega þétt setin. Ég get varla fylgst með NBA deildinni.  En ég skoða alltaf eftir hvert tímabil svona hvað var að gerast og ég reyni að heyra í Brenton (Birmingham) reglulega og þá spyr ég hann aðeins út í hvað er að gerast. Ég fylgist aðeins með strákunum sem hafa farið erlendis eins og þeim sem hafa farið til spánar en það er vissulega þannig að það breytir engu hvaðan leikmenn koma á meðan þeir hafa hæfileika.  EN Ísland er vissulega á kortinu. Nokkuð skemmtilegt að þegar þú hringdir þá gat ég ekki svarað strax þar sem ég var á ráðstefnu með öðrum útsendurum og við hiliðina á mér var útsendari frá LA Lakers. Ég sagði við hann að þetta væri líklega númer frá Íslandi og hann varð mjög áhugasamur og spurði mig spjörunum úr og hvað væri í gangi þar. Ég sagði honum allt af því og að deildin þar væri sterkari en flestir ættu von á.” 
 
Hvað felst í því að vera útsendari fyrir NBA lið? Hvernig er vinnudagurinn?
Þetta snýst að öllu leiti hjá mér um tímastjórnun.  Að ná að sjá og meta yfir 200 leikmenn á hverju ári er mikil áskorun fyrir mig og þar er ekki nóg að sjá þá bara einu sinni.  Það eru líka gríðarlega margir hlutir sem spila inní. Upplýsingar frá þjálfurum, bæði háskóla og menntaskóla, gera sér grein fyrir því hvað leikmaðurinn getur og getur ekki. Launaþak þarf líka að hugsa um eins og ég sagði mjög margir hlutir sem koma að þessu.  Ég hef þroskast gríðarlega mikið frá því ég byrjaði í þessum bransa, eða frá því hérna um árið þegar ég hélt ég væri bara nokkuð góður í þessu en hafði bara ekki hugmynd um hvað þetta snérist. Gríðarlega mikið af ferðalögum og lítill tími fyrir fjölskyldu en sem stendur er ég ókvæntur. “
 
“Það er erfitt að lýsa einum degi hjá mér þannig að ég ætla bara að fara yfir síðustu og næstu viku hjá mér. Í síðustu viku var ég í Bahamas, já það kann að hljóma mjög afslappandi en þarna var ég í 4 daga að horfa á fjóra leiki á hverjum degi.  Ég kom svo til New York í dag kl 16:00 og þurfti að koma mér niður til Brooklyn að horfa á Kentucky og Provicence spila. Svo er annar leikur á morgun í háskólaboltanum.  Í næstu viku fer ég til Oklahoma, Lousiville, Nebraska, kem við heima í Charlotte og fylli út skýrslur og geri tilbúið fyrir fundarhöld í Indiana.  Daginn eftir fer ég svo af stað til Michigan, þaðan til Oakland, Florida. Eftir þessar ferðir eru svo fjögurra daga fundarhöld hjá Indiana Pacers. Ég gæti haldið áfram en svona í grófum dráttum þá eru þetta næstu vikurnar hjá mér.  Og eins og ég sagði þá snýst þetta allt um tímastjórnun hjá mér og það er nánast jafn erfitt og að finna góða leikmenn.” sagði Pete Philo í samtali við Karfan.is 
 
Mynd: Pete á hér í höggi við Jón Arnór Stefánsson.