Þór mátti þola sitt fyrsta tap á heimavelli í kvöld þegar Hattarmenn komu í heimsókn í Síðuskóla. Enn og aftur var boðið upp á háspennuleik í Síðuskóla og því miður fyrir heimamenn voru það gestirnir frá Egilstöðum sem fögnuðu 75-76 sigri.
 
 
Þór byrjuða leikinn betur og náði fljótt bilstjórasætinu. Jarrell Crayton byrjaði sérlega vel í sóknarleiknum og skoraði 8 af fyrstu 14 stigum Þórs á meðan Sindri Davíðsson var afar sprækur í varnarleiknum og gerði gestunum lífið leitt. Hattarmenn með þá Frisco Sandidge og Austin Bracey voru þó ekki á því að láta heimamenn komast upp með neitt múður og saman skoruðu þeir 18 af 20 stigum gestanna í 1. leikhluta. Þórsarar leiddu leikinn með þremur stigum eftir fyrsta fjórðung 23-20.
 
Þórsarar byrjuðu annan leikhluta síðan af krafti og náðu fljótt níu stiga forskoti 33-24 og var þetta mesta forskot sem heimamenn náðu i leiknum. Hattarmenn neituðu þó að gefast upp, skiptu yfir í svæðisvörn og svöruðu góðri byrjun Þórsara með 0-9 spretti. Sem oft voru það frændurnir, Frisco og Austin sem voru í fararbroddi í liði gestanna, bæði sóknar og varnarlega. Smá saman náðu gestirnir að ýta heimamönnum úr farþegasætinu og áður en fyrri hálfleik lauk voru gestirnir komnir með 4 stiga forskot og staðan í hálfleik 39 – 43.
 
Þórsarar mættu ágætlega stemmdir til leiks í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu 4 stigin. Gestirnir létu það þó ekki slá sig út af laginu og sátu sem fastast í bilstjórasætinu og voru ávallt skrefi á undan heimamönnum. Svæðisvörn gestanna var oft og tíðum að gera heimamönnum lífið leitt sem létu boltann einfaldlega ekki ganga nógu vel á milli sín. Hattar menn enduðu þriðja leikhluta með að skora sex síðustu stig fjórðungins og leiddu leikinn með 5 stigum, 61-66 fyrir síðasta fjórðung.
 
Ekki er hægt að segja að síðasti fjórðungurinn hafi boðið upp á fallegan körfubolta. Sóknarleikur Hattarmanna var einfaldlega ekki nógu góður og misstu þeir knöttinn oft klaufalega og buðu Þórsurum bílstjórasætið. Heimamenn voru þó ekkert alltof spenntir að taka við keflinu og gerðu sig seka um að nýta sér ekki nógu vel mistök gestanna. Með góðri baráttu náði Þór að jafna metin í 71 – 71 þegar um fimm mínútur voru eftir og allt stefndi í einn enn háspennuleikinn í gasklefanum. Síðustu mínútur leiksins var ekki annað hægt en að naga á sér neglurnar, spennan var slík. Leikmennirnir sjálfir áttu líka erfitt með spennustigið, enda eins og áður sagði var fagurleikinn ekki beint í efsta sætinu.
 
Ólafur Ingvason kom Þór yfir 75-74 þegar hann setti niður annað vítaskot sitt niður þegar einungis 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Sem fyrr var Frisco Þórsurum erfiður ljár í þúfu þegar hann setti niður tvo stig þegar einungis 9 sekúndur voru eftir og staðan 75 – 76. Bjarki Oddson tók leikhlé og teiknaði upp síðustu sókn leiksins. Það kom í hluta Ólafar að taka síðasta skot leiksins. Ólafur náði að búa sér til ágætis rými og náði ágætis skoti, en niður vildi boltinn þó ekki og Hattar fögnuðu sigri, 75 – 76.
 
Í liði Hattar voru þeir félagar Frisco Sandidge og Austin Bracey allt í öllu en þeir kumpánar skoruðu 55 af 76 stigum gestanna. Í liði Þórs voru þeir Jarrell Crayton (22 stig) og Ólafur Aron Ingvason (21 stig) atkvæðamestir ásamt Sindra Davíðssyni sem setti niður 17 stig.
 
Þór hefur oft spilað betur en í kvöld. Skotnýtingin hjá liðinu var þó enn og aftur akkilesarhæll liðsins. Ekki er hægt að kvarta yfir tveggja stiga nýtingunni sem var 58% en þriggja stiga og víta nýting liðsins var einfaldlega ekki boðleg. Einungis 50% vítanýting og 14% nýting í þriggja stiga skotum er einfaldlega ekki nógu gott til að búast við sigri. Til samanburðar þá hittu Hattarmenn einfaldlega mun betur í kvöld, 48% nýting í tveggja stiga skotum, 41% í þriggja stiga skotum og 68% vítanýting.
 
Baráttan hjá Þór var það sem hélt þeim inn í leiknum og með smá heppni hefðu þeir geta stolið sigrinum, en gestirnir héldu út og fögnuðu sigri.
 
 
Umfjöllun/ Sölmundur Karl Pálsson