Í upphafi tímabils kynnti Stöð 2 Sport að sýnt yrði frá sex deildarleikjum í Domino´s deild karla fyrir áramót. Þegar hafa fjórir leikir verið sýndir og segir Hjörvar Hafliðason dagskrárstjóri Stöðvar 2 Sport að móttökurnar hafi verið fínar. Hætta varð við útsendingar í Stykkishólmi og í Þorlákshöfn en sýnd var upptaka úr Stykkishólmi og þá er ekki sýnt viðureign Stjörnunnar og KFÍ en sá leikur fer fram í kvöld en allt á þetta sér skýringar segir Hjörvar.
 
 
„Það náðist ekki ljósleiðarasamband í Stykkishólmi en við sýndum þann leik síðar þar sem við tókum hann upp með lýsingu. Eftir þetta var farið í það að skoða fleiri staði og þá komumst við að raun um að ekki væri hægt að vera með beina útsendingu úr Þorlákshöfn. Okkar útsendingarbíll er með HD-útsendingar og þannig varð útsending ekki möguleg í Þorláksöfn,“ sagði Hjörvar og hvað varðar leik kvöldsins í Garðabæ þá var útsendingarbíllinn tvíbókaður í kvöld.
 
„Við fengum flottan leik hjá Njarðvík og Keflavík og svo er „Liðið mitt“ einnig á dagskrá sem er að koma mjög skemmtilega út, gaman að sjá hvernig málum er t.d. háttað hjá liðum úti á landi, þættirnir um KFÍ og Þór Þorlákshöfn voru mjög skemmtilegir,“ sagði Hjörvar.
 
Upphaflega var kynnt að sex deildarleikir yrðu sýndir fyrir áramót en þeir munu verða fimm í heildina í beinni sem er þó umtalsvert meira en áður hefur verið. Næsti leikur sem sýndur verður er viðureign Njarðvíkur og Stjörnunnar þann 16. desember í Ljónagryfjunni og verða leikirnir þá samtals orðnir sex fyrir áramót þar sem leikur Snæfells og Grindavíkur var tekinn upp með lýsingu og sýndur degi seinna.
 
„Eftir áramót verðum við með þrjá deildarleiki og veljum svo spennandi slag í lokaumferðinni, þannig að fyrir úrslitakeppnina verða þetta fjórir deildarleikir og úrslitakeppnin svo tekin á fullu gasi eins og síðustu ár. Þetta er allt saman upphitun fyrir átökin í úrslitakeppninni, við erum að hitna rétt eins og liðin í deildinni og mars, apríl, maí verða svakalegir körfuboltamánuðir.“
 
Nú er óhjákvæmilegt annað en að tímabilið verði lengra með tilliti til þess að búið er að bæta inn í 8-liða úrslit að vinna þurfi 3 leiki til að komast áfram. Hjörvar er með tillögu. „Ég vil körfuboltaleiki á leiðinlegustu daga ársins, skírdag og föstudaginn langa, þá vil ég helst bara fá tvíhöfða,“ sagði Hjörvar léttur á manninn.
 
Mynd/ KKÍ og Stöð2 Sport gerðu fyrir tímabilið nýjan samstarfssamning.