Íslandsmeistaratitillinn fór á loft og þjálfarinn sagði skilið við félagið. Þetta sjáum við nú ekki gerast á hverjum degi en þannig varð nú raunin engu að síður eftir að Helgi Jónas Guðfinnsson hafði stýrt Grindvíkingum til Íslandsmeistaratitils eftir úrslitarimmu gegn Þór Þorlákshöfn. Að tímabili loknu snéri Helgi sér alfarið að sínu aðalstarfi en hann rekur æfingastöðina Metabolic í Reykjanesbæ sem ber nafn æfingakerfis sem Helgi hannaði. Nú strax á nýja árinu verður Metabolic kerfi Helga Jónasar tekið í notkun í æfingastöð í Denver. Helgi ætlar ekki fram úr sjálfum sér hvað varðar frægð og frama í líkamsræktargeiranum en vinnur þó hörðum höndum að því að kynna kerfi sitt og í dag er boðið upp á æfingar í Metabolic á átta stöðum á Íslandi.
 
„Já ég var í Bandaríkjunum til að kanna hvort ég væri með söluvöru í höndunum, þetta kom mjög snögglega upp en ég ákvað að slá til og fara út og sýna æfingakerfið mitt. Ég skrifaði þetta allt saman upp á ensku en þetta voru um 1000 blaðsíður um æfingar og útfærslur og verður Metabolic kerfið prufukeyrt núna í janúar í Denver í Bandaríkjunum,“ sagði Helgi sem um miðjan desembermánuð var í Denver hjá Billy Corbett að kynna kerfið sitt en Corbett þessi er m.a. fyrrum styrktarþjálfari Denver Nuggets.
 
„Corbett tók rosalega vel í Metabolic kerfið og er mjög vel tengdur maður. Hvað framhaldið varðar þá bara veit ég það ekki en reyni allt hvað ég get til að koma því á framfæri,“ segir Helgi en stöðin hans í Reykjanesbæ, Metabolic, ber nafn sitt eftir kerfinu sem Helgi þróaði.
 
„Varan okkar er tilbúin en er vitaskuld í stöðugri þróun, skjalinu er aldrei lokað en þetta er spurning um hvernig eigi að bera vöruna fram, markaðssetja hana og selja sem slíka. Það er ekki hægt að selja svona vöru sem skjal eða bók heldur þarfnast þetta töluverðra útskýringa svo það er spurning hvort þetta fari í fyrirlestraform eða t.d. myndbandakennslu.“
 
Í eins fáum orðum og hægt er að lýsa æfingakerfi segir Helgi að keppst sé við að halda öryggi, bjóða upp á skemmtun og fjölbreytileika. „Öryggi í æfingum og þetta þarf að vera skemmtilegt til þess að fólk komi og þá þarf þetta einnig að vera mjög fjölbreytt því við fáum mjög fljótt leið á hlutunum. Tímalega séð er þetta einnig stutt, 40-45 mínútur hver æfing með upphitun, niðurlagi og öllu saman.“
 
Hvað varðar frumkeyrsluna á erlendum vettvangi, nánar tiltekið í Denver segir Helgi að kerfið sé nú komið upp í hendurnar á miklum reynslubolta. „Billy Corbett rekur litla einkastöð í Denver og er mikill reynslubolti. Corbett var styrktarþjálfari hjá Denver Nuggets hér í gamla daga og einnig ritstjóri af einum af stærstu þjálfunarsíðum á netinu, þetta er reyndur karl sem m.a. hefur kennt í Life Fitness Academy. Ég tel að Metabolic kerfið sé í góðum höndum hjá honum,“ sagði Helgi en hvernig viðtökur fær það hér heima?
 
„Góðar viðtökur, maður væri hrokafullur ef maður segði þetta henta öllum en þetta hentar mörgum. Þetta er öðruvísi. Grunnurinn í kerfinu er að nýta ákveðin orkukerfi. Í grunninn byggir æfingakerfið á fjórum meginþemum innan allra þriggja erfiðleikastiganna; Styrktarþjálfun, þolþjálfun, kraftþjálfun og fitubrennslu. Þannig sjáum við til þess að iðkendur æfi öll þau helstu orkukerfi sem þarf að æfa til að komast í gott alhliða form en flestir kannast við að vera sjálfir að æfa í tækjasal og æfa frekar einhæft. Hver grunntími á svo fjölda margar útfærslur af tíma þannig að fjölbreytnin er mjög mikil innan hvers erfiðleikastigs og iðkendur vinna sig svo upp um stig eftir getu og áhuga. Þetta er mjög fjölbreytt og iðkendur eru frá byrjendum og upp í afreksíþróttamenn. Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson gerðu smá prufukeyrslu á Metabolic í sumar og eru að nota það hjá Sundsvall núna og eru gríðarlega sáttir með það. Þetta er alltaf sama hugsunin, byrjendur eða afreksmenn, sömu 40-45 mínúturnar en kerfið er meira krefjandi þegar þú ert íþrótta- og afreksmaður,“ sagði Helgi og verður spennandi að fylgjast með útrás þessa íslenska æfingakerfis sem gríðarlega margir körfuknattleiksmenn hafa nýtt sér síðustu misseri.
 
„Það eru spennandi tímar að ganga í garð en ég hleyp ekki fram úr sjálfum mér við að kynna Metabolic á erlendum vettvangi. Maður þarf þó að vera ýtinn enda ekkert gefið í þessu, bara halda áfram að róa og fara eins langt með þetta og ég get.“