Aluinvent Miskolc vann í kvöld öruggan 61-80 útisigur á Lotto Young Cats í Eurocup kvenna þar sem Helena Sverrisdóttir var í byrjunarliði Miskolc og var næststigahæst með 16 stig.
 
 
Helena hitnaði fyrir utan því hún setti niður alla þrjá þrista sína í leiknum, tók tvö fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Frábær frammistaða hjá landsliðskonunni sem fyrir ekki alls svo löngu var að glíma við kálfameiðsli.
 
Miskolc er nú í 2. sæti í E-riðli Eurocup og á einn leik eftir í riðlakeppninni á útivelli gegn Wasserburg sem verður úrslitaleikur um síðasta sætið upp úr riðlinum. Sem stendur hefur Miskolc umtalsvert betri stöðu með 8 stig en Wasserburg með 7. Liðin mætast 12. desember á heimavelli Wasserburg en Miskolc vann fyrri viðureignina með 16 stiga mun. Miskolc má því tapa með 15 stigum og þá enda liðin jöfn að stigum í riðlinum en Miskolc hefur þá betur innbyrðis.