Snæfellingar voru fyrir leikinn í meiðslavandræðum og tifandi tímasprengja var lýsing á ástandi margra í hópnum. Hafþór Ingi Gunnarsson “Herra Borganes” var búinn að fá útgefið frá læknum að hætta íþróttaiðkun vegna hnéáverka og er það mikill biti fyrir Snæfellinga en hann kemur til með að vera innan þjálfarateymis Snæfellinga áfram. Njarðvíkingaar voru allir mættir og að sjá heilir en þeir hafa verið sterkir það sem af er í 4. sæti á meðan Snæfell er í 8. sæti.
 
 
 
Snæfellingar byrjuðu af meiri einbeitni og komust í 15-5 þar sem þeir spiluðu allt aðra vörn en við höfum verið að sjá eða kannski ekki aðra vörn heldur gekk þetta betur upp núna. Njarðvíkingar hittu ekki vel í upphafi og voru eilítið á eftir í vörninni en Hjörtur Einarsson hafði skorað öll stigin 5. Snæfell hélt 10 stiga forystu út fyrsta hluta og gerðu gott betur undir lokin og voru yfir 31-16. Þrátt fyrir eymslasögur og veikindi voru heimamenn nokkuð vel með á nótunum.
 
 
Gestirnir grænu komu með meira inn í sinn leik í öðrum hluta og virtust ætla að bíta frá sér 33-24 en Snæfellsmenn bjuggu sér til svigrúm til að sækja og uppskáru að bæta forskotið 40-25. Vance, Pálmi og Sigurður fóru fyrir góðri heild og voru að spila sóknir sínar vel. Snæfell hafði einnig á þessum punkti í leiknum 21 frákast gegn 11 Njarðvíkur og voru að taka alla bolta úr sinni vörn. Njarðvík bætti heldur betur í undir lokin og tóku 7-0 kafla með góðum skotum og sóknum komust nær 44-37 en staðan í hálfleik var 46-40 fyrir heimamenn.
 
Hjá Snæfelli var Cooksey komin með 17 stig, Pálmi 9 stig og Sigurður 7 stig. Í liði Njarðvíkur var Nigel Moore kominn með 14 stig og hafði tekið af skarið þegar Njarðvík saxaði niður forskotið, Hjörtur 7 stig en Elvar og Logi voru með 6 stig hvor.
 
 
Njarðvíkingar sýndu mátt sinn þegar þeir jöfnuðu 48-48 en Snæfellsmenn misstu boltann klaufalega og voru ragir í sóknaraðgerðum en Njarðvík refsaði hart á móti og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum 50-51 með Elvar og Loga velvakandi og grimma. Kaflaskipti voru í leiknum og Snæfell áttu næsta þátt með því að skjóta sér í 59-51 og voru sendingar Vance Cooksey oft og tíðum augnayndi. Njarðvík komu aftur til baka en staðan eftir þriðja hluta 64-58 og spennandi leikur í gangi í Stykkishólmi.
 
 
Heimamenn voru komnir með þrjá leikmenn með 4 villur þá Stefán, Svein Arnar og Snjólf í upphafi fjórða hluta og Njarðvík sóttu stíft og eins og áður sagði voru kaflaskipti í leiknum og þeir jöfnuðu 66-66 með 8-0 kafla. Stefán Karel kom Snæfelli aftur í forskot 75-68 með tveimur stigum og vítaskoti niður og varnarleikur Snæfells small svona inn og út en heilt yfir var vörnin inn í leiknum og í raun töluvert betri frá fyrri leikjum þeirra. Snæfell var með 10 stiga forskot þegar 1:30 voru eftir 84-74 og Stefán og Sveinn Arnar komnir útaf. Hjörtur Hrafn fór á tréverkið hjá Njarðvík á meðan Snæfell komst í 89-74 með 10-0 kafla sínum og gestirnir söfnuðu villum undir lokin. Snæfell átti afar mikilvægan heimasigur 90-77 og ljósir punktar í þeirra leik í kvöld. Njarðvíkingum vantaði framlag frá fleirum en Elvar og Nigel gátu ekki, þrátt fyrir flottann leik þeirra haldið uppi leik gestanna, einir undir lokin.
 
 
Snæfell: Vance Cooksey 21/7 frák/12 stoðs. Sigurður 17/11 frák/7 stoðs. Pálmi Freyr 14/7 frák. Stefán Karel 13/7 frák. Finnur Atli 10. Sveinn Arnar 6/5 frák. Jón Ólafur 6/6 frák. Kristján Pétur 3. Snjólfur Björnsson 0. Óttar Sigurðsson 0. Tinni Guðmundsson 0. Þorbergur Helgi 0.
 
 
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 24/5 frák/8 stoðs. Nigel Moore 20/9 frák. Logi Gunnarsson 10. Hjörtur Hrafn 9. Ágúst Orrason 5/4 frák. Friðrik Stefán 4. Ólafur Helgi 3. Óli Ragnar 2. Ragnar Helgi 0. Egill Jónasson 0. Halldór Örn 0. Maciej S. Baginski 0.
 
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
Mynd úr safni/ Ómar Örn – Vance Cooksey með flotta tvennu hjá Snæfell í kvöld, 21 stig og 12 stoðsendingar.