Heiðrún Kristmundsdóttir verður ekki leikfær með Coker háskólanum í Bandaríkjunum fyrr en snemma á nýja árinu en hún er að glíma við álagsbrot í hægri legg. „Ég er á hækjum þessa dagana og verð með þær þar til eftir jól,“ sagði Heiðrún í samtali við Karfan.is.
Coker höfðu 69-60 sigur á Lincoln Memorial um síðastliðna helgi þar sem liðinu tókst aðeins að tefla fram sjö leikmönnum á skýrslu. Heiðrún er byrjunarliðsmaður í Coker með 4,5 stig að meðaltali í leik þetta tímabilið, 2,8 stoðsendingar og leiðir liðið með 1,7 stolinn bolta á leik.
Heiðrún gerir ráð fyrir að missa af næstu tveimur leikjum liðsins en ætlar sér að vera klár í slaginn gegn Brevard þann 4. janúar næstkomandi.