Þór Þ. og Haukar mættust í kvöld í níundu umferð Domino´s deildar karla í Icelandic Glacial-höllinni Fyrir leikinn voru liðin jöfn með átta stig hvort í 6. og 7. sæti deildarinnar. Þessi leikur var áhugaverður fyrir margar sakir en í leiknum mættust tveir af betri miðherjum deildarinnar.

Það var spennandi að fylgjast með baráttu miðherjanna þeirra Ragnars Nathanaelssonar, hjá Þór, og Terrence Watsons, hjá Haukum. Afar ólíkir leikmenn en báðir hafa þeir verið að spila mjög vel fyrir sín lið á báðum endum vallarins.

Rimma þeirra var æsispennandi í allt kvöld. Leikmennirnir nýttu sýna styrkleika afar vel við að kljást við hvorn annan. Ragnar hæðina og Terrence snerpuna og kraftinn. Þeir félagar tóku fyrstu skot sinna liða og stimpluðu sig strax inn. Barátta þeirra olli ekki vonbrigðum og var gaman að sjá hve öflugur Ragnar er orðinn og kominn með flottar hreyfingar nálægt körfunni. Hann var að hlaupa hraðaupphlaup og skutla sér á eftir lausum boltum. Á meðan var Terrence að sýna að hann getur sótt á leikmenn sem eru sér stærri en hann þurfti að nýta alla sýna hæfileika til að koma boltanum ofan í körfuna yfir Ragnar.

Niðurstaða kvöldsins hjá miðherjunum var tvenna á báðum vígstöðvum. Ragnar með 18 stig 7/11 í skotum og 11 fráköst. Terrence með 28 stig 13/19 í skotum og 12 fráköst. Munurinn í kvöld var að Terrence fékk aðstoð frá félögum sínum sem Ragnar fékk ekki. Haukarnir voru einfaldlega sterkari á í öllu sem skiptir máli í körfuboltaleik.

Haukar tóku forskot mjög snemma í leiknum og keyrðu upp muninn og var hann fljótlega kominn í 20 stig. Þórsarar sáu aldrei til sólar og voru lykilleikmenn liðsins einfaldlega ekki í takti. Lítið kom út úr Nemanja Sovic, Tómasi Tómassyni og Mike Cook Jr. Þó að Mike var með 16 stig þá kom helmingur þeirra í loka leikhlutanum þegar niðurstaðan var öllum í húsinu augljós. Ragnar átti góðan leik en það dróg hratt af honum þegar leið á leikinn en hann þarf að fá að hvíla meira í fyrri hluta leiksins. Baldur Ragnarsson barðist vel og lagði sitt á vogarskálarnar með 12 stigum. Í lok leiksins var hann að skutla sér á eftir lausum boltum þó staðan væri vonlaus fyrir heimamenn.

Hjá Haukum var mun jafnari frammistaða og átti Terrence góðan dag en Helgi Björn Einarsson, sem var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu, mjög gott kvöld en hann var með 13 stig. Emil Barja var mjög góður, þó tölfræðin hafi ekki verið í þrennuútgáfu, en hann stjórnaði leik liðsins sem var lungann úr leiknum mjög góður. Einnig áttu Haukar Óskarsson og Davíð Páll Hermannsson góðan leik en þeir settu 18 og 14 stig. 16 stig Hauks komu í fyrri hálfleik og lokaði hann m.a. fyrri hálfleik með flautu þrist. Hinn ungi Kristján Leifur Sverrisson átti flotta innkomu en hann var með fjögur stig og fimm fráköst á sjö mínútum.

Niðurstaða kvöldsins er sú að Haukaliðið lék sinn besta leik í vetur á meðan heimamenn sáu aldrei til sólar.

Tölfræði leiksins

Þór Þ.-Haukar 76-104 (13-26, 19-27, 21-27, 23-24)

Þór Þ.: Ragnar Ágúst Nathanaelsson 18/11 fráköst, Mike Cook Jr. 16, Baldur Þór Ragnarsson 12/4 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 10, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Nemanja Sovic 7/7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Halldór Garðar Hermannsson 0, Matthías Orri Elíasson 0.

Haukar: Terrence Watson 28/12 fráköst, Haukur Óskarsson 18/5 stoðsendingar, Davíð Páll Hermannsson 14/4 fráköst, Helgi Björn Einarsson 13, Emil Barja 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Kári Jónsson 9/8 stoðsendingar, Kristján Leifur Sverrisson 4/5 fráköst, Sigurður Þór Einarsson 2, Steinar Aronsson 2, Svavar Páll Pálsson 2, Kristinn Marinósson 2, Alex Óli Ívarsson 0.

Dómarar: Kristinn Oskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Jakob Árni Ísleifsson

Umfjöllun: Stefán Már Haraldsson


Mynd:
Helgi Björn Einarsson átti flott kvöld í Þorlákshöfn – nonni@karfan.is