Haukar fengu Hamarstúlkur í heimsókn í Schenkerhöllina í kvöld í 14. umferð Dominsodeildar kvenna þar sem að Haukar fóru með 64-53 sigur af hólmi.
Hamarsstúlkur byrjuðu leikinn mjög ákveðnar og voru duglegar að sækja inn í teiginn og var þar Marín Laufey Davíðsdóttir mest áberandi. Haukastúlkur voru hins vegar mjög rólegar og yfirvegaðar og spiluðu bara sinn leik. Leikhlutinn var mjög jafn ásamt lítilli stigaskorun, þó voru Haukar aðeins sterkari undir lokin og var Jóhanna Björk Sveinsdóttir með góða innkomu af bekknum. Athygli vakti að annar dómari leiksins þurfti að fá lánað teip hjá sjúkraþjálfara Hamars rétt fyrir lok leikhlutans.
Eftir þessa aðgangshörku að teig Hauka í fyrsta leikhlutanum skiptu Haukastúlkur yfir í svæðisvörn til að stoppa þann leka. Hamar svaraði með sama bragði. Haukar létu það ekki á sig fá og spiluðu einkar fallegan sóknarleik gegn svæðisvörninni þar sem að þær hreyfðu boltann mjög vel og uppskáru alltaf góð skotfæri. Ef þeim tókst ekki að nýta skotin þá tóku þær bara sóknarfrákastið og reyndu aftur. Það er vert að geta þess að Lele Hardy var utanvallar á þessum tímapunkti og ungu stúlkurnar þær Sylvía Rún Hálfdanardóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir voru áberandi á þessum kafla.
Á meðan að Haukar spiluðu þennan mikla liðsbolta þá voru Fanney Lind Guðmundsdóttir og Marín Laufey áberandi bestar hjá Hamri í fyrri hálfleik á meðan að Íris Ásgeirsdóttir var dugleg í fráköstunum. Di’Amber Johnson var heillum horfin allt þar til á seinustu 90 sekúndum leikhlutans þegar það kveiknaði loksins á henni og hún skoraði 5 stig í röð fyrir Hamar svo að þær leiddu með einu stigi, 25-26 í hálfleik.
Á sama tíma fékk Marín Laufey sína fjórðu villu og átti það eftir að vera dýrkeypt fyrir Hamar í seinni hálfleik.
Á sama tíma fékk Marín Laufey sína fjórðu villu og átti það eftir að vera dýrkeypt fyrir Hamar í seinni hálfleik.
Haukar komu sterkar til leiks úr hálfleiknum og héldu áfram glæsilegum samleik sínum síðan úr fyrri hálfleik. Hamarsstúlkur virtust hins vegar eitthvað vankaðar og spurning hvort að villuvandræði Marínar hafi farið í hausinn á þeim. Haukar með frábæra 10-0 byrjun og Hamar átti engin svör við góðum varnarleik Hauka.
Haukar hleyptu hins vegar Hamri aftur inn í leikinn með því að fara brjóta mikið klaufalega af sér og hleypa Hamri fjórvegis á góðgerðarlínuna á seinustu 90 sekúndum leikhlutans þar sem að Hamar uppskár 7 stig.
Marín Laufey kom aftur inn á í fjórða leikhluta eftir að hafa hvílt allan þriðja leikhluta. Marín komst aldrei aftur í takt við leikinn, hvort sem að það var vegna villuvandræðana eða hvíldarinnar. Sama má segja um Hamarsliðið í heild því þær misstu boltann trekk í trekk og gengu Haukar á lagið og áttu 10-1 áhlaup á þær.
Hamarsstúlkur virtust þreyttar og að uppgjöf væri komin í hópinn því Haukar fóru í hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru þar sem að þær voru annað hvort fremstar eða í meirihluta.
Hamar neitaði þó að gefast upp og sóttu á Hauka, sem voru farnar að vera kærulausar, og áttu 7-2 kafla sem hafði hæglega getað verið stærri en þær voru einstaklega óheppnar þar sem að boltinn skrúfaðist furðulega oft upp úr hringnum hjá þeim.
Vel komið tilbaka hjá Hamarsstúlkum en munurinn var of mikill og því auðvelt fyrir Hauka að halda sigrinum.
Vel komið tilbaka hjá Hamarsstúlkum en munurinn var of mikill og því auðvelt fyrir Hauka að halda sigrinum.
Mynd/ Þóra Kristín skoraði fyrstu stigin sín í deildinni í kvöld.