Haukar tóku á móti Snæfellingum í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld að Schenker-höllinni í Hafnarfirði. Fyrirfram mátti búast við hörku viðureign sem svo reyndist vera rétt. Þegar þessi lið mættust fyrr í vetur í Schenker-höllinni höfðu Haukar nauman fimm stiga baráttu sigur 82-77. Snæfell lék í kvöld án Jón Ólafs Jónssonar sem er frá vegna meiðsla.
Snæfellingar voru sterkari í upphafi leiks í kvöld og var varnarleikur þeirra afar þéttur. Þeir lokuðu á Hauka sem áttu í miklum erfiðleikum með að skora og eftira aðeins fjórar mínútur var Emil Barja komin í villuvandræði og Kári Jónsson kom inná fyrir hann. Eftir það lagaðist sóknarleikur Hauka og skotin þeirra fóru að detta. Það voru Snæfellingar sem spiluðu frábærlega í fyrsta leikhluta og skoruðu 26 stig gegn 15 frá Haukum. Stefán Karel Torfason átti frábæra innkomu hjá Snæfellingum og setti nokkrar góðar körfur og var með átta stig í fyrsta leikhluta.

Gestirnir úr Hólminum héldu áfram að setja góðar körfur í öðrum leikhluta og juku þeir muninn. Fór hann mestur í 16 stig um miðjan annan leikhluta. En þetta Haukalið virðist aldrei gefast upp og fóru þeir að minnka muninn jafnt og þétt og þegar leikhlutinn var allur var staðan 45-51 gestunum í vil og hörkuleikur í gangi á fjölunum í Schenker-höllinni.

Haukar komust í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar Kári Jónsson setti niður fallegt þriggja-stiga skot í lok þriðja leikhluta og Haukar leiddu 64-61. Davíð Páll Hermannsson jafnaði leikinn mínútu fyrr fyrir Hauka en varnarleikur Hauka þéttist í þriðja leikhluta á meðan Snæfellingar settu ekki skotin sín og mörg þeirra voru nokkuð góð. Stemningin virtist öll vera Haukamegin í lok leikhlutans en Snæfellingar sýndu mikla kænsku að klára leikhlutann á þriggja-stiga fléttu þar sem Sigurður Þorvaldsson skoraði körfu og fékk vítaskot að auki um leið og flautan gall. Að sjálfsögðu setti hann vítaskotið og jafnt 66-66 þegar þriðji leikhluti var búinn.

Lokaleikhlutinn var hin mesta skemmtun þó að Haukar voru með frumkvæðið allan tímann var munurinn ávallt ein eða tvær körfur og því gestirnir aldrei langt undan. Pálmi Freyr Sigurgeirsson var frábær fyrir Hólmara í leikhlutanum og nýtti alla sína reynslu í að annað hvort að komast á línuna eða setja körfur. Pálmi sem var með 15 stig í kvöld setti 10 þeirra í fjórða leikhluta. Haukar virtust vera að landa þessu þegar innan við tvær mínútur voru eftir og sex stigum yfir sýndu Snæfellingar mikla seiglu og minnkuðu muninn í tvö stig þegar mínúta var eftir og nóg eftir af leiknum. Snæfellingar fengu sókn til að jafna leikinn en skot Stefán Karels var varið af Terrence Watson og Haukar kláruðu leikinn á vítalínunni.

Í blálokin þegar Snæfellingar voru að brjóta til að setja Hauka á línuna var dæmd óíþróttamannsleg villa á Sigurð Þorvaldsson sem var ekki rétt og Haukar fengu þarna gjöf til að klára leikinn. En miðað við stöðuna í leiknum þurftu þeir ekki á því að halda og þau vonbrigði sem Snæfellingar sýndu í lokin voru réttmæt. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, uppskar tæknivillu og leikurinn því í raun alveg búinn. Haukar unnu leikinn 90-84 og eru því komnir áfram í 8-liða úrslit.

Stigahæstur hjá Haukum var Terence Watson með 18 stig og 12 fráköst. Emil Barja setti 16 stig og gaf sjö stoðsendingar. Stigaskorun Hauka var mjög dreifð en fimm leikmenn Hauka skoruðu 10 stig eða meira og þrír aðrir voru með níu eða átta stig. Hjá Snæfelli var Vance Cooksey með 27 stig og átta stoðsendingar og Pálim Freyr Sigurgeirsson setti 15.

Tölfræði leiksins

Mynd: Terrence Watson átti kvöld fyrir Hauka eins og fleiri leikmenn liðsins.

Texti: Stefán Már Haraldsson

Mynd: Axel Finnur