Haukar luku tvíhöfða kvöldsins með 76-59 sigri gegn Skallagrím í Schenkerhöllinni í lokaleik 10. umferðar Dominosdeildar karla.
Baráttan um annað sætið er gríðarleg eins og stendur þar sem að Grindavík, Njarðvík, Stjarnan og Haukar eru öll með 12 stig og Þór Þorlákshöfn og Snæfell eru aðeins tveimur stigum frá.
 
En að leik kvöldsins. Haukar voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta í annars frekar jöfnum leik þó svo að Skallagrímur hafi ekkert stigið út. Haukar leiddu 18-6 í fráköstum eftir fyrsta leikhlutann og þar af með 10 sóknarfráköst. Í einni sókninni skellti Terrence Watson sér í Bill Laimbeer gírinn þar sem að hann brenndi af 4 skotum í röð undir körfunni en náði alltaf sóknarfrákastinu aftur. Versta við þetta var að hann þurfti varla að hoppa til að ná fráköstunum, það léleg var vörnin hjá Skallagrím.
Annars var Haukur Óskarsson mjög heitur og setti niður 4 af 6 þristum sínum í leikhlutanum.
 
Skallagrímur voru miklu betri aðilinn í upphafi annars leikhluta þar sem að þeir áttu 13-1 kafla. Páll Axel Vilbergsson kom þeim yfir, 23-24, þegar hann smellti niður einum þrist en hann lét þó ekki þar við sitja og splæsti í annan strax í næstu sókn.
Haukar búnir að vera hreint út sagt afleitir þangað til að Sigurður Þór Einarsson tók til sinna mála og átti þriggja stiga sókn. Hann keyrði framhjá Oscar Jermaine Bellfield í opið sniðskot og svo braut Orri Jónsson á honum. Þetta var upphafið á 9-2 kafla sem kom Haukum aftur inn í leikinn og innihélt meðal annar glæsilegt iðnartroð hjá Watson. Hann átti svo eftir að bæta við tveimur troðslum til viðbótar í leiknum.
Haukur var atkvæðamestur hjá Haukum í fyrri hálfleik með 12 stig og næstur honum Var Watson með 10 stig og 13 fráköst.
Hjá Skallagrími voru Egill Egilsson og Páll Axel með 10 stig hvor á meðan að Bellfield var nánast búinn að vera ósýnilegur.
 
Þriðji leikhlutinn var mjög kaflaskiptur með miklum barningi í teignum. Skallagrímur byrjuðu á 7-2 kafla en þá áttu Haukar 12-2 kafla. Eftir það fóru liðin að skiptast á körfum en Haukar voru komnir með yfirhöndina.
 
Eftir að hafa ekki skorað stig í 27 mínútur komst Páll Axel aftur á blað og skoraði 6 stig á þremur mínútum en það höfðu getað verið 8 stig en hann steig tvívegis í röð á þriggjastigalínuna. Agli gekk heldur ekki vel í seinni hálfleik og skoraði aðeins 2 stig. Einnig komst Bellfield aldrei í takt við leikinn og var það banabiti Skallagríms.
Vörn Hauka var gríðarlega sterk í lokin og stálu þeir hverjum boltanum á fætur öðrum.
 
 
Mynd – úr safni/ Terrence Watson var öflugur í kvöld með 18 stig og 21 frákast ásamt 5 stolnum boltum og þremur troðslum