Lele Hardy, leikmaður Hauka í Domino’s-deild kvenna, var flutt á sjúkrahús eftir leik liðsins gegn Snæfelli í Stykkishólmi í fyrrakvöld. visir.is greinir frá.
 
 
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, staðfesti þetta við Vísi í dag. Hardy fékk slæma vöðvakrampa eftir leikinn sem stóðu lengi yfir. Svo lengi að viðstaddir höfðu áhyggjur.
 
„Ég er búinn að vera í sportinu í nokkuð mörg ár en ég hef aldrei fyrr séð leikmann fá svona svæsna vöðvakrampa. Við vildum því vera öruggir og kölluðum til lækni sem færði hana á sjúkrahús til frekari skoðunar,“ segir Bjarni.
 
Hardy hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsinu og er komin aftur í Hafnarfjörð. Hún hittir sérfræðing síðar í dag þar sem hún fær frekari upplýsingar um ástæður krampanna.