„Það er alls ekki gott að fá svona tíðindi,“ sagði Hafþór Ingi Gunnarsson leikmaður Snæfells en nú er komið að leiðarenda hjá þessum öfluga íþróttamanni. Meiðsli Hafþórs eru af þeim toga að hann á þann eina kostinn vænstan að segja skilið við keppnisíþróttir. Karfan.is ræddi við Hafþór í dag sem minntist á það í samtalinu að auðvitað hefði hann viljað verða Íslands- eða bikarmeistari á ferlinum en það dylst engum að þarna kveður sterkur leikmaður með langan og góðan feril á bakinu. Hafþór þekkja allir sem fylgjast með körfubolta og kvitta undir þá pappíra að hér segir reynslubolti skilið við sportið.
„Ég fékk bara þá niðurstöðu frá lækni að annað hvort myndi ég halda áfram og skemma meira í leiðinni eða vera klár og sniðugur, hætta núna og ganga eðlilega það sem eftir er,“ sagði Hafþór en allt brjósk vantar orðið í annað hné hans. „Það hafa líka verið bólgur og einhver kúla sem myndaðist utan á hnéð og þetta hefur verið bara bein í bein upp á síðkastið. Allar götur eftir Skallagrímsleikinn hefur þetta farið stigversnandi,“ sagði Hafþór sem er þó ekki á leið í neina aðgerð.
„Læknirinn tjáði mér að það væri ekki hægt að laga þetta að neinu ráði og það fannst mér slæmt að heyra. Þetta var orðið mjög óþægilegt í hvert skipti sem maður var að hlaupa, stefnubreytingar og annað álag, þessu fylgdi alltaf sársauki. Ég hef ekkert getað hreyft mig síðustu vikurnar vegna þessa en get hjólað.“
Fyrir íþróttamann eins og gefur að skilja þá þýða þessar niðurstöður að Hafþór er komin á endastöð. „Það er alls ekki gott að fá svona tíðindi og svo finnur maður það á sér eins og í leiknum gegn Njarðvík í gær þá var ekki séns að vera sitjandi á rassgatinu á bekknum. Það er hundleiðinlegt að vera ekki með strákunum úti á gólfi að spila, geta ekki lagt sitt til liðsins inni á vellinum.“
Aðspurður um ferilinn lítur Hafþór Ingi nokkuð sáttur til baka. „Ég vann ekki neitt, varð deildarmeistari með Snæfell en fór tvisvar í úrslit, fyrst með Skallagrím og svo Snæfell en hefði viljað verða Íslands- eða bikarmeistari en þegar allt kemur til alls þá er ég mjög ánægður með þetta. Ég hef spilað lengi og spilað með mörgum góðum leikmönnum og hef skapað mjög góð vinabönd,“ sagði Hafþór en verður þetta nokkuð hans svanasöngur í íslenskum körfubolta?
„Það gæti alveg verið að maður tengdist körfuboltanum áfram enda hef ég þjálfað síðan ég var 18 eða 19 ára gamall. Ég sé samt ekki fram á það alveg strax að ég fari að þjálfa en verð örugglega eitthvað viðloðandi þetta, mæti á einn og einn leik og öskra á menn,“ sagði Hafþór kíminn sem ætlar að klára vertíðina með Snæfell af fullum krafti.
„Ég verð með eins og ég get, hjálpa Inga og Gulla með ýmislegt í kringum liðið, hvort sem það er að klippa myndbönd eða annað. Nú ef Rabbi er að sjá um brúsana þá tek ég bara í handklæðin,“ sagði Hafþór og þessi síðasta setning lýsir eflaust best hvaða mann Hafþór Ingi Gunnarsson hefur að geyma. Þetta er félagsmaður og stríðsmaður allt í senn.
„Já, ég er mikill félagsmaður, er bara þannig gerður, mér finnst gaman að vera í hóp og gaman að vera innan um fólk sem manni líkar vel við. Mér líkar vel hér í Hólminum svo ég er ekki á leiðinni undir neinn feld og held ótrauður áfram og klára þetta tímabili en fer örugglega ekki aftur í búning, sé það bara ekki gerast.“
Mynd/ Ómar Örn – Hafþór í leik með Snæfell gegn uppeldisfélagi sínu Skallagrím í Fjósinu í Borgarnesi
