Gunnar Einarsson sagði skilið við körfuboltann fyrir tveimur árum. Eftir að hafa unnið allt með sem í boði var með einu sigursælasta liði sem hefur leikið körfubolta á Íslandi, ákvað Gunnar að leggja skóna á hilluna. Margir voru undrandi yfir ákvörðun Gunnars en þegar hann hætti virtist hann ennþá eiga fullt erindi meðal þeirra bestu, enda hafði hann sjaldan verið í betra formi. Ástæðan fyrir því að Gunnar var svona vel á sig kominn í lok ferilsins var nýja ástríðan, líkamsræktin. Gunnar sneri sér að einkaþjálfun eftir að ferlinum lauk en hann segir sjálfur að sá vettvangur eigi afar vel við sig. Þar getur hann miðlað af reynslu sinni sem fyrrum íþróttamaður í fremstu röð.
 
 
Hvenær vaknaði þessi brennandi áhugi hjá þér á líkamsræktinni?
„Áhuginn var alltaf til staðar en alls ekki í þeirri mynd sem hann er í dag hjá mér. Ég átti það til að vera voða duglegur yfir sumarið að æfa í lyftingasalnum en svo hætti maður því um leið og körfuboltatímabilið tók við. Seinna meir áttaði ég mig á því að ég var að græða mikið meira á því að æfa á ársgrundvelli og þegar ég fór að taka til í mataræðinu þá var eins og þetta hafi smollið allt saman. Boltinn fór að rúlla og hér er ég í dag að vinna við það sem ég elska og er gríðarlega þakklátur fyrir það,“ segir Gunnar en honum hefur gengið vel á nýjum vettvangi og vakið þar nokkra athygli. Hann rekur í dag Einka.is í samstarfi við Ásdísi Þorgilsdóttur eiginkonu sína sem einnig er einkaþjálfari.
 
„Ég vil vera þessi þjálfari sem ég hefði viljað hitta þegar ég var yngri, það sem ég veit í dag vil ég miðlað til annara íþróttamanna svo þeir geti náð ennþá lengra í sinni íþrótt. Mig svíður þegar ég sé hæfileikaríkt íþróttafólk sem gæti orðið svo mikið betra ef það einfaldlega myndi breyta um lífsstíl. Ég get miðlað minni reynslu frá mínum íþróttabakgrunni, sem maður les ekki í neinni bók og er ómetanlegt að mínu mati.“