Grindvíkingar eru komnir í 8-liða úrslit Poweradebikarsins eftir 68-72 sigur á Keflavík í lokaleik 16-liða úrslita keppninnar. Jafnt var á öllum tölum frá upphafi til enda en Íslandsmeistararnir héldu þetta út á lokasprettinum og kreistu fram sigur með háskolaboltakenndar lokatölur. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gerði sínum gamla liði Keflavík skráveifu með 20 stig og 11 fráköst í kvöld en Michael Craion klikkaði heldur ekki á tvennunni frekar en fyrri daginn með 22 stig og 14 fráköst í liði Keflavíkur en hann var einnig með 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta.
 
 
Það var lítið skorað í fyrri hálfleik og leiddu heimamenn 16-15 að loknum fyrsta leikhluta. Grindvíkingar tóku svo hægt og bítandi forystuna í öðrum leikhluta með góðri vörn og leystu þeir vel úr svæðisvörn Keflavíkur.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson opnaði annan leikhluta með torðslu yfir Keflavíkurvörnina og gulir gestirnir voru duglegir að ógna svæðisvörn Keflavíkur við endalínuna og gaf það nokkur góð stig. Michael Craion var þjófóttur þennan fyrri hálfleikinn með fjóra stolna bolta en Ólafur Ólafsson átti tilþrif fyrri hálfleiks er hann varði glæsilega skot frá Darrel Lewis og kom þannig boltanum í hraðaupphlaup sem lyktaði með körfu frá Jóhanni Árna Ólafssyni, myndarleg flétta þegar skammt var til hálfleiks og leiddu gestirnir 31-36 í leikhléi.
 
Craion var með 7 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta í hálfleik í liði Keflvíkinga en Clinch og Sigurður Gunnar með 12 stig og Sigurður einnig með 6 fráköst í liði Grindavíkur. Nokkuð lokaður og læstur fyrri hálfleikur og ekki laust við að flóðgáttir ættu eftir að opnast í þeim síðari enda heimamenn í Keflavík aðeins með 27% nýtingu í teignum sem telst vart til eftirbreytni.
 
Sprækir Keflvíkingar gerðu níu fyrstu stigin í þriðja leikhluta án þess að Grindavík kæmi að stigum, reyndar tók það gestina úr Röstinni næstum fimm mínútur að koma sér á blað í síðari hálfleik en það gerði Jóhann Árni Ólafsson og minnkaði þá muninn í 40-38.
 
Eftir þennan fimbulkulda í Grindvíkingum í upphafi síðari hálfleiks jöfnuðst leikar á ný og liðin skiptust á forystunni en Guðmundur Jónsson kom Keflavík í 43-40 með þrist sem einnig voru hans fyrstu stig í leiknum eftir næstum 30 mínútna leik! Liðin skildu þó jöfn 47-47 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og vann Keflavík þrijða leikhluta því 16-11 og stigarýrðin orðin jafnvel enn meiri en í fyrri hálfleik.
 
Snemma í fjórða leikhluta jafnaði Jóhann Árni Ólafsson leikinn fyrir Grindavík í 54-54 og skömmu síðar varð Guðmundur Jónsson að kveðja leikinn með sína fimmtu villu, ekki dagur hans Guðmundar að sinni. Grindvíkingar urðu svo fyrir því missa mann af velli þegar Ólafur Ólafsson, sem átti flottar rispur í kvöld með sinni alkunnu baráttu, skoraði og kom Grindavík í 60-62 en fékk svo rakleiðis tæknivillu dæmda á sig og þar með sína fimmtu villu. Eftir því sem við á Karfan.is komumst næst var Ólafur þegar kominn með aðvörun og dómarar leikins því ekki sáttir að fá „störuna“ og þar með kom tæknivillan.
 
Þessi rispa kom ekki meira við Grindvíkinga en svo að Clinch splæsti í þrist og kom gestunum í 62-65. Sigurður Gunnar Þorsteinsson setti svo tvö þegar rúm mínúta var til leiksloka og kom Grindavík í 64-67. Keflvíkingum misfórst að minnka muninn og Þorleifur Ólafsson jók muninn í 64-68 þegar 22 sekúndur lifðu leiks. Þetta dugði fyrir meistarana til að halda út og smokra sér inn í 8-liða úrslit, lokatölur 68-72.
 
Framlagið kom úr þónokkrum áttum hjá Grindavík í kvöld, miðherjinn Sigurður Gunnar með flottan leik í 20 stigum og 11 fráköstum, Clinch með 17/5/5 og þeir Jóhann Árni, 12 stig, og Ómar Örn, 10 stig, voru sömuleiðis drjúgir. Ólafur Ólafsson setti 8 stig, tók 10 fráköst og átti tilþrif leiksins er hann varði glæsilega skot frá Darrel Lewis í fyrri hálfleik.
 
Hjá Keflavík var Michael Craion sem fyrr með tvennu, 22 stig og 14 fráköst en einnig 6 stoðsendingar og 5 stolnir boltar. Dýrkeypt þetta skiptið fyrir Keflavík að hinn öflugi Guðmundur Jónsson sló ekki taktinn og skildi við leikinn með aðeins 3 stig en Darrel Lewis var með 12 stig og 8 fráköst. Skotnýting Keflvíkinga í teignum hefði mátt vera betri en hún var 33% í kvöld en er að öllu jöfnu 49,21% í deildarkeppninni.
 
Það eru því Grindvíkingar sem verða í pottinum á miðvikudag þegar dregið verður í 8-liða úrslit Poweradebikarsins en Keflvíkingar þurfa ekki að bíða lengi eftir að koma fram hefndum, liðin mætast aftur á fimmtudag í Domino´s deildinni og aftur í TM-Höllinni.