Nokkru fargi er af FSu-liðinu og stuðningsmönnum þess létt, eftir ágætan sigur á ÍA í Iðu, og því útlit fyrir að jólahald geti orðið með eðlilegum hætti hér austan Fjalls. Eftir nokkra tapleiki í röð fer liðið í fríið á jákvæðari nótum. Sigur heimamanna var öruggur og þó „aðeins“ hafi munað 15 stigum í lokin, 102-87, var bilið milli liðanna um 20 stig meiri hluta seinni hálfleiks.
 
 
Heimaliðið byrjaði betur, 12-7 eftir 3 mínútur, en Skagamenn voru komnir til að spila körfubolta og sneru taflinu sér í vil, 13-16 efti 6 mínútur. Það var þó skammgóður vermir og FSu leiddi 24-19 eftir 10 mínútna leik. Leikurinn var í jafnvægi í öðrum leikhluta, FSu þó ávallt með forystuna en ÍA fylgdi í humátt á eftir og minnkaði muninn tvisvar í 3 stig í fjóðungnum. Í hálfleik munaði enn 5 stigum, 45-40. Í þriðja hluta skildi smám saman á milli og eftir 26 mínútna leik hafði FSu náð 20 stiga forskoti, 70-50, og sá munur hélst í stórum dráttum til leiksloka. Mesti munur varð 23 stig, 78-55, en þegar 10 mín. voru eftir stóð 80-61 á stigatöflunni. Síðasta fjórðunginn rokkaði munurinn upp og niður fyrir 20 stigin, en síðustu 3 mínúturnar dró þó aðeins saman, eins og fyrr var getið.
 
Skagamenn hafa átt fínt mót í haust, unnið 4 leiki og veitt liðunum harða keppni í tapleikjum. Fyrir liðinu fer Zachary Jamarco Warren, örsmár en afar knár bakvörður sem getur skorað nánast að vild. Erik Olson, þjálfari FSu, setti landa sinn, framherjann Collin Pryor, til höfuðs Warren en þrátt fyrir mjög góðan varnarleik Pryor skoraði Warren 39 stig, hitti úr 7 af 10 tveggja stiga skotum og 6 af 17 þristum, sem gerir alls 48% skotnýtingu. En aðrir skjóta svo sem ekki mikið á meðan. Svo nældi sá stutti í 9 fráköst að auki! Áskell Jónsson skoraði 15 stig (7/11) og ein 6-8 stig í röð undir lok fyrri hálfleiks. Sem betur fer fyrir heimamenn var Áskell ekki heitur utan þriggja stiga línunnar að þessu sinni (0/5). Sigurður Rúnar skoraði 12 stig og Ómar Örn Helgason 11 (9 fráköst), Erlendur Ottesen 5 (8 fráköst), Birkir Guðjónsson 3 og Jón Rúnar Baldvinsson 2 stig.
 
Það er alltaf jafn gaman að fá Skagamenn í heimsókn. Í þeirra herbúðum voru nú þrír leikmenn sem við áhorfendur í Iðu áttum góðar stundir með á upphafsárum FSu-liðsins, þeir Sigurður Rúnar, Áskell og Birkir. Sá fjórði, Hörður Nikulásson, var ekki með núna en hann gerði FSu skráveifu þegar ÍA vann leik liðanna uppi á Skaga í fyrra.
 
Hjá FSu var fyrrnefndur Collin Pryor í sérflokki og fer vaxandi með hverjum leik. Hann er öflugur varnarmaður, bæði úti á opnum velli sem í stöðubaráttu undir körfunum, og bætir sig stöðugt sóknarlega. Fær reyndar furðufáar villur þegar hann sækir að körfunni. Stundum með ólíkindum að fylgjast með því. En Collin skoraði 38 stig, var með 71% skotnútingu, 14 fráköst, 5 stoðsendingar og hvorki meira né minna en 51 í framlag! Í vítaskotunum, sem ritari hnýtti í í skrifum um síðasta heimaleik, ríkir nú fegurðin ein (8/10). Skagamenn áttu engin svör við Collin í kvöld, en þess verður vitaskuld að geta að þeir söknuðu sárlega Dags Þórissonar, sem er meiddur. Þar er sannarlega skarð fyrir skildi. Þó kominn sé á efri ár í boltanum munar hvert lið um minna en slíkan snilling.
 
Þó ekki liti vel út framan af viku með Ara Gylfason vegna bakmeiðsla, þá harkaði fyrirliðinn vitaskuld af sér og átti mjög góðan leik. Hann skilaði flottri tvennu, 19 stigum og 10 fráköstum og daðraði við þrennuna með mörgum flottum stoðsendingum. Svavar Ingi snögghitnaði í þriðja leikhluta og sallaði niður þristunum á mikilvægu tímabili í leiknum þegar FSu náði þeirri forystu sem máli skipti. Hlynur Hreinsson var í sannkölluðu jólaskapi, með pakka til allra og dreifði gullunum (10 stoðsendingar), stjórnaði leiknum mjög vel og setti 7 stig. Birkir Víðisson kemur með sífellt meira sjálfstraust af bekknum. Hann skoraði 10 stig, átti falleg gegnumbrot og þegar sjálfstraustið eykst enn fer þristunum að rigna. Erlendur Ágúst stóð sig vel. Barátta hans í vörn og sóknarfráköstum er til fyrirmyndar, og sömu sögu má segja um Arnþór Tryggvason sem er mikilvægur hlekkur í liðinu og skilar sínu hlutverki afar vel.
 
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson