Fjölnismenn mættu liði Fsu á heimavelli sínum í Dalhúsum í kvöld í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. FSu höfðu harma að hefna þar sem þeir þurftu að sætta sig við tap gegn Grafarvogspiltum á Selfossi í síðasta deildarleik. Það var vægast sagt róleg stemmning á pöllunum og pláss fyrir fleiri, en skífuþeytir hússins reyndi sitt besta fyrir leik með því að bjóða upp á hið eldhressa stuðningsmannalag Fjölnis. Það er enginn metall en alveg á pari við önnur lög í sama flokki.
Vonir stóðu til að leikmenn liðanna gætu hresst upp á andrúmsloftið og leikurinn fór ágætlega af stað. Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og lokuðu vel á sóknartilburði gestanna. Erlendur leikmaður FSu, C. Pryor, fór svo í gang og kom sínum mönnum ofan á með ,,and1“ ítrekað enda illviðráðanlegur í teignum. Gestirnir komu sér í 10-14 en þá var eins og Fjölnismenn hafi ákveðið að byrja af fullri alvöru og leikurinn snerist hratt þeim í vil aftur. D. Sims fór fyrir heimamönnum, silkimjúkur undir körfunni og rammþjófóttur á hinum enda vallarins sem skilaði sér í 24-19 forystu að loknum fyrsta fjórðung.
Annar leikhluti var svo skuldlaus eign Fjölnismanna. Ólafur Torfason og Emil Þór snögghitnuðu og ásamt fyrrnefndum Sims keyrðu þeir yfir gestina. Þeir náðu fljótt 11 stiga forystu 32-21, ekkert vildi ofan í hjá gestunum enda vörn heimanna FSu-mönnum erfiður ljár í þúfu. Sóknarleikur gestanna var líka frekar einhæfur þar sem allt snerist um að koma boltanum á Pryor, en það heppnaðist ekki alltaf. Munurinn jókst hratt og í stöðunni 51-31 leit út fyrir notalegan heimasigur. Staðan einu stiginu skárri fyrir gestina í hálfleik, 59-40.
Lítið virtist ætla að breytast framan af í þriðja leikhluta. Fjölnismenn héldu gestunum frá sér og glöddu áhorfendur með fallegri ,,í-spjaldið-alley-oop-sendingu“ á Sims. Gestirnir voru þó ekkert á þeim buxunum að gefast upp og eiga hrós skilið fyrir frábæra baráttu. Er á leið leikhlutann fjölgaði varnarmönnum þeirra óhlutbundið þar sem bekkurinn veitti kraftmikinn hljóðfræðilegan og andlegan stuðning í varnarleiknum. Það skilaði sér í fínum leikhluta en munurinn þó enn 13 stig, 78-65 að honum loknum.
Gestunum tókst að halda stemmningu áfram í vörninni í fjórða leikhluta og sóknin kom þá að sjálfu sér, eins og frasinn kveður á um. Fleiri stigu upp og eftir gullfallegan hyldjúpan þrist einhvers staðar ofan af Skaga frá Hlyni Hreinssyni var staðan allt í einu orðin 83-81, um 6 mínútur eftir og allt galopið! Frábær endurkoma gestanna. Að sama skapi sýndu Fjölnismenn að þeir eru engir sveitarómagar og svöruðu einfaldlega áhlaupinu með 9-3 kafla, staðan 92-84 og 4 mínútur lifðu leiks. Mínútu síðar setti svo Óli Torfa risastóran þrist upp úr engu og kom sínum mönnum aftur 10 stigum yfir, 96-86. Hann hitti svo naglann á höfuðið í kjölfarið er hann benti áhorfendum prúðmannlega á að þarna væri björninn unninn með orðunum ,,Við erum meððetta“. Það reyndist kórrétt, lokatölur 104-92.
Að mati undirritaðs var leikurinn alveg hreint ágætis skemmtun og ráðgáta hvað íbúar Grafarvogs höfðu betra að gera á þessu sunnudagskvöldi. Emil Þór var frábær í þessum leik fyrir heimamenn, setti 27 stig eins og Sims sem hirti 17 fráköst þar að auki. Róbert Sigurðsson, Óli Torfa og Páll Fannar áttu líka mjög fínan leik og má segja að breiddin hafi skapað sigurinn í kvöld. Pryor var afar áberandi í liði gestanna með helliströllatvennu, 40 stig og 20 fráköst, en fleiri komu svo til í síðari hálfleik. Hlynur Hreinsson skilaði 16 stigum, Ari 14 og Svavar 11.
Umfjöllun: Kári Viðarsson